Heimild kvótahafa til þess að flytja aflamark í botnfiski milli fiskveiðiára hefur verið aukin úr 15% í 25% samkvæmt reglugerð sem Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur undirritað.
Fram kemur í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins að breytingin hafi verið gerð í þeim tilgangi að stuðla að meiri sveigjanleika við veiðar og vinnslu til að bregðast við áhrifum kórónuveirufaraldursins á íslenskan sjávarútveg.
Bent er á í tilkynningunni að gögn Fiskistofu sýna að hlutfall landaðs botnfiskafla var 65% hinn 15. maí en var tæp 70% á sama tíma í fyrra. „Mikill samdráttur í eftirspurn eftir ferskfiski í heiminum í kjölfar COVID-19 er helsta ástæða þessarar lækkunar en einnig hefur dregið úr eftirspurn fyrir frosnum afurðum á síðustu vikum. Við þær aðstæður var talið rétt að veita tækifæri til frekari sveigjanleika við veiðar og vinnslu með því að hækka heimild til flutnings úr 15% í 25%.“