„Það gefur veika von um skárri tíð“

Humarstofninn stendur höllum fæti og segir Sverrir Haraldsson, sviðsstjóri bolfiskvinnslu …
Humarstofninn stendur höllum fæti og segir Sverrir Haraldsson, sviðsstjóri bolfiskvinnslu hjá Vinnslustöðinni, að einhver von sé um að nýliðun sé að aukast en að frekari gögn þurfi til þess að draga ályktanir um framtíð stofnsins. Ljósmynd/VSV

Fyrsta humri árs­ins hjá Vinnslu­stöðinni í Vest­manna­eyj­um var landað úr Brynj­ólfi VE föstu­dag­inn 8. maí og er Dranga­vík VE einnig á humar­veiðum. Bát­arn­ir hafa verið í Skeiðar­ár­dýpi fyrstu daga vertíðar­inn­ar, að því er fram kem­ur í færslu á vef Vinnslu­stöðvar­inn­ar.

Þar seg­ir að humar­vertíðin sé tíðinda­lít­il eins og gera mátti ráð fyr­ir vegna veikr­ar stöðu humarstofns­ins og ráðlagði Haf­rann­sókna­stofn­un út­gáfu lág­marks­kvóta í vís­inda­skyni til að fylgj­ast með heilsu­fari stofns­ins. Af gögn­um Haf­rann­sókna­stofn­un­ar að ráða sést að nýliðun skort­ir í humarstofn­in­um. Á vef Vinnslu­stöðvar­inn­ar er full­yrt að „það teng­ist hvorki veiðum né veiðarfær­um held­ur ein­hverj­um aðstæðum í líf­ríki sjáv­ar­ins“.

Ekk­ert af humri við Eyj­ar

„Þor­láks­hafn­ar­menn og Horn­f­irðing­ar byrja yf­ir­leitt á und­an okk­ur Eyja­mönn­um í humr­in­um, í mars eða apríl. Vertíðin hefst á aust­ur­svæðinu, frá Horna­fjarðardýpi að Skeiðar­ár­dýpi og fær­ist svo vest­ar þegar líður á vorið og fram á sum­ar,“ út­skýr­ir Sverr­ir Har­alds­son, sviðsstjóri bol­fisk­vinnslu hjá Vinnslu­stöðinni, í færsl­unni.

„Und­an­far­in ár hef­ur mest veiðst við Eld­ey og hum­ar er veidd­ur líka í Jök­ul­dýpi en þar er nú lokað vegna vernd­araðgerða. Lóns­dýpi er sömu­leiðis lokað og svæði á Breiðamerk­ur­dýpi. Hér við Eyj­ar hef­ur sama og ekk­ert veiðst af humri í mörg ár.“

Humarinn er eftirsóttur, en dregið hefur úr eftirspurn í Evrópu …
Humar­inn er eft­ir­sótt­ur, en dregið hef­ur úr eft­ir­spurn í Evr­ópu vegna far­ald­urs­ins. mbl.is/​Sig­urður Bogi Sæv­ars­son

Sverr­ir seg­ir nýliðun skorta í stofn­in. „Ein­göngu hef­ur veiðst stór hum­ar und­an­far­in ár en nú kem­ur fyr­ir að smár hum­ar fá­ist líka. Það gef­ur veika von um skárri tíð en við þurf­um fleiri og skýr­ari vís­bend­ing­ar og mun meiri gögn til að byggja á og draga af álykt­an­ir.“

Vinnslu­stöðin sel­ur heilfryst­an hum­ar til Spán­ar og humar­hala á markaði víða á meg­in­landi Evr­ópu, seg­ir hann og bend­ir á að um þess­ar mund­ir eru veit­inga­hús víða lokuð vegna kór­ónu­veirunn­ar og eng­in spurn eft­ir humri. „Við veiðum því og fram­leiðum eft­ir hend­inni og reyn­um að spila úr þeim markaðsfær­um sem gef­ast þegar far­aldr­in­um linn­ir og lífið fær­ist í fyrra horf, þar á meðal í veit­inga­húsa­rekstri.“

mbl.is