Eyjamenn kvöddu Sturlu

Sturla GK lagði af stað til Grindavíkur frá Vestmannaeyjum í …
Sturla GK lagði af stað til Grindavíkur frá Vestmannaeyjum í gær. Ljósmynd/Guðmundur Alfreðsson

Í gærmorgun sigldi Sturla GK frá Vestmannaeyjum, en skipið hét áður Vestmannaey VE og undir lokin Smáey VE og var í eigu Bergs-Hugins frá árinu 2007. „Þetta farsæla skip er nú í eigu Þorbjarnar hf. í Grindavík en ný Vestmannaey er gerð út af Bergi-Hugin,“ segir á vef Síldarvinnslunnar.

Þar segir að hópur hafi komið að bryggju í dag til þess að kveðja skipið og var það Magnús Kristinsson, fyrrverandi aðaleigandi og framkvæmdastjóri Bergs-Hugins, sem leysti landfestarnar.

Fram kemur að skipið var smíðað í Póllandi fyrir Berg-Hugin og hafi reynst vel frá upphafi. „Það hefur ávallt aflað vel og farið vel með mannskap. Sama er að segja um systurskipið, sem bar nafnið Bergey VE, en var selt til Grundarfjarðar á síðasta ári og heitir nú Runólfur SH. Bergey var einnig leyst af hólmi af nýju og glæsilegu skipi. Runólfur sigldi frá Eyjum hinn 30. september sl. og þá leysti Magnús Kristinsson einnig landfestarnar.“

Magnús Kristinsson segist sakna þessara góðu skipa sem hafi þjónað Eyjamönnum vel. „Þessi skip hafa reynst gífurlega vel og þau voru sannkallaður happafengur. Smíði þeirra tókst með ágætum og útgerð þeirra var alla tíð farsæl á meðan þau voru í eigu Bergs-Hugins. Ég hef fulla trú á því að skipin eigi eftir að reynast nýjum eigendum vel og ég vil bara óska nýju eigendunum til hamingju með þau. Þeir verða ekki sviknir af þessum skipum, um það er ég sannfærður.“

Magnús Kristinsson leysir landfestar Sturlu GK í gær þegar skipið …
Magnús Kristinsson leysir landfestar Sturlu GK í gær þegar skipið kvaddi Eyjarnar. Ljósmynd/Guðmundur Alfreðsson
mbl.is