Íslenski sjávarklasinn hefur hafið undirbúning á kynningu á þeirri tækni, ráðgjöf og þjónustu sem íslensk fyrirtæki geta veitt á alþjóðamarkaði á sviði nýtingar hliðarafurða fisks, segir í tilkynningu á vef Sjávarklasans.
„COVID-19 hefur gert sjávarútvegi um allan heim erfitt fyrir. Mörg erlend sjávarútvegs- og vinnslufyrirtæki þurfa því nú enn meira en áður að skoða alla möguleika til að nýta betur afurðir og fá þannig meiri verðmæti,“ segir í tilkynningunni.
Fram kemur að rannsóknir benda til þess að fjölmargar þjóðir nýta ekki eða illa hliðarafurðir fisksins. Þar á meðal haus, bein og roð, innyfli og þess háttar. „Íslendingar hafa á hinn bóginn skapað sér nafn sem sú þjóð sem nýtir vel hliðarafurðir sjávarfangs og fjölmörg fyrirtæki eru starfrækt á Íslandi sem sinna rekstri á þessu sviði.“
Biður Sjávarklasinn því nú um upplýsingar frá þeim aðilum sem bjóða upp á tækni á þessu sviði, ráðgjöf eða aðra þjónustu sem nýst getur erlendum aðilum sem vilja bæta nýtingu sjávarafurða. Í kjölfar þess að búið er að tengja saman einstaklinga, stofnanir og fyrirtæki sem hafa áhuga á að efla samstarf á þessu sviði, verður farið í að undirbúa kynningu.
Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.