Utanríkismálanefnd Alþingis fékk fulltrúa utanríkisráðuneytisins til þess að fara yfir það hvernig fylgst er með stöðu mála í Hong Kong á fundi nefndarinnar í gær.
„Mér fannst tilefni til að fá upplýsingar um þetta frá ráðuneytinu í kjölfar frétta af frekari íhlutun Kommúnistastjórnarinnar í Hong Kong,“ segir Sigríður Á. Andersen, formaður utanríkismálanefndar, í samtali við mbl.is. „Ég hef áhyggjur af gangi mála.“
Hún segist ekki geta gefið nákvæmar upplýsingar um það sem fram fór á fundinum, en segir utanríkisráðuneytið fylgjast grannt með gangi mála á sjálfsstjórnarsvæðinu, þar sem þúsundir hafa flykkst á götur út undanfarna daga, þrátt fyrir kórónuveirufaraldurinn, til að mótmæla nýjum lögum sem samþykkt voru í kínverska þinginu á föstudag, sem gefa kínversku stjórninni víðtækari heimild til að bæla niður uppreisnaráróður og sjálfstæðistilhneigingar í héraðinu.
Sigríður segir að ekki standi til að nefndin aðhafist í málinu að svo stöddu, en að nefndin hvetji ráðuneytið til að fylgjast áfram með gangi mála.
„Við höfum fulltrúa kínverskra stjórnvalda hér á Íslandi sem menn eiga í ágætum samskiptum við. Mönnum gefst tækifæri til að koma á framfæri skoðunum sínum á þessum efnum við hann, en nefndin sem slík gerir það ekki.“