Að minnsta kosti tveimur lýðræðissinnuðum þingmönnum var í dag vísað út af þinginu í Hong Kong fyrir mótmæli þeirra við ákvörðun þingsins um að samþykkja ný lög sem gefa kínversku stjórninni víðtækari heimild til þess að bæla niður uppreisn og sjálfstæðistilhneigingar sjálfsstjórnarhéraðsins Hong Kong.
„Ég vil að þingforseti skilji hvað ég á við með rotinn,“ sagði annar þingmannanna, Ted Hui og henti rotnum plöntum í gólf þingsalarins og sagði þær standa fyrir rotnun stjórnmálakerfisins í Hong Kong.
Þingforseti taldi plönturnar „óþekktan hættulegan hlut“ og kallaði bæði til lögreglu og slökkviliðsmenn.
Lögin eiga að taka gildi áður en september gengur í garð en Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í dag að lögin gerðu það að verkum að ekki væri hægt að segja áfram að Hong Kong hefði mikla sjálfsstjórn frá meginlandi Kína. Því ætti Hong Kong ekki lengur að fá öðruvísi meðferð frá Bandaríkjunum en meginland Kína. Ummæli Pompeo gætu haft mikil áhrif á viðskipti Hong Kong og Bandaríkjanna en þau hafa vakið mikla reiði á meðal kínverskra yfirvalda í Hong Kong.
Utanríkisráðuneyti Hong Kong sagði í tilkynningu í dag að ummæli Pompeo væru óeðlileg og Bandaríkin ættu að hætta að blanda sér í innri mál Kína.