„Hefði viljað sjá þetta töluvert betra“

Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir að tekið hafi verið tillit …
Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir að tekið hafi verið tillit til sjónarmiða ASÍ að hluta en telur að stjórnvöld hefðu þurft að setja skýrari skilyrði. Ljósmynd/Valgarður Gíslason

„Það var komið til móts við okk­ar sjón­ar­mið að hluta til en ekki öllu leyti. Við höf­um tölu­verðar áhyggj­ur af starfs­ald­urs­röð og vild­um fá það inn. Við vild­um líka fá það inn að fólki gæf­ist færi á end­ur­mennt­un meðan á upp­sagn­ar­fresti stæði," seg­ir Drífa Snæ­dal, for­seti ASÍ, í sam­tali við mbl.is.

Drífa var spurð um frum­vörp rík­is­stjórn­ar­inn­ar sem samþykkt voru á Alþingi í gær um greiðslu rík­is­ins á hluta launa á upp­sagn­ar­fresti sem og um fram­leng­ingu hluta­bóta­leiðar­inn­ar. Fyrr í vik­unni hafði hún varað við því að ef frum­vörp­in yrðu samþykkt óbreytt gæti það leitt til mestu kjara­skerðing­ar síðari tíma með stuðningi lög­gjaf­ans.

Frum­vörp­in tóku breyt­ing­um eft­ir að þau komu inn á borð efna­hags- og viðskipta­nefnd­ar Alþing­is en sum­um stjórn­ar­and­stöðuþing­mönn­um fannst ekki nóg gert. Skil­yrði hefðu þurft að vera strang­ari auk þess sem nokkr­ir þeirra sögðu frum­varpið um greiðslu launa á upp­sagn­ar­fresti skapa hvata til upp­sagna.

Stjórn­völd setji skýr skil­yrði við aðstoð af þessu tagi

Hún seg­ir að tekið hafi verið til­lit til þess að við end­ur­ráðningu skuli miða við fyrri ráðning­ar­samn­ing starfs­manns í stað kjara­samn­ings. Þannig er ekki hægt að segja upp starfs­fólki og ráða það svo aft­ur á lak­ari kjör­um en það var með áður.

„Nei ég hefði viljað sjá þetta tölu­vert betra. Mér finnst að stjórn­völd geti sett skýr skil­yrði við aðstoð af þessu tagi en þetta var til bóta,“ seg­ir Drífa spurð hvort hún sé ánægð með breyt­ing­arn­ar sem gerðar voru á frum­vörp­un­um.

Sam­kvæmt frum­varpi fjár­málaráðherra til fjár­auka­laga er gert ráð fyr­ir því að kostnaður vegna úrræðis­ins verði 27 millj­arðar króna. Þar er gert ráð fyr­ir því að hluta­bóta­leiðin muni á end­an­um kosta 34 millj­arða króna.

mbl.is