Skorar á stjórnmálamenn að efla strandveiðikerfið

Strandveiðimenn í smábátafélaginu Hrollaugi í Hornafirði
Strandveiðimenn í smábátafélaginu Hrollaugi í Hornafirði

„Ég skora á þá stjórn­mála­menn sem láta sig vel­ferð þjóðar­inn­ar að ein­hverju varða að efla strand­veiðikerfið svo um mun­ar, þjóðin á það skilið,“ seg­ir Vig­fús Ásbjörns­son, formaður Smá­báta­fé­lags­ins Hrol­laugs á Hornafirði. „Árið 2017 voru ætluð 9.200 tonn af þorski til strand­veiða og aukn­ing­in er á þess­um tíma frá 2017 hvorki meira né minna en heil 800 tonn af þorski handa um það bil 700 smá­bát­um, sem er skamm­ar­lega lítið.“

Vig­fús tel­ur mikl­um verðmæt­um sóað með ónýtt­um veiðiheim­ild­um þeirra sem stunda fisk­veiðar inn­an kvóta­kerf­is­ins. „Í strand­veiðikerf­inu má veiða þúsund tonn af ufsa, en þess ber að geta að þúsund­ir tonna af óveidd­um ufsa brenna inni í fisk­veiðikerf­inu á ári hverju sem eng­inn nýt­ir og er sóun á tæki­fær­um og verðmæta­sköp­un. Það eru 20% af afla­verðmæti ufs­ans sem renna til rík­is­ins við strand­veiðar auk veiðigjalda þegar all­ar strand­veiðiút­gerðir þurfa á hverri ein­ustu krónu að halda til að reka sig. Allt í einu eru þarna líka 100 tonn af karfa sem eng­inn veit neitt um né nokkr­ar skýr­ing­ar hafa verið gefn­ar á.“

Þrengt að smá­bát­um

Hann seg­ir til­hög­un veiðanna draga úr getu strand­veiðimanna til þess að sækja afl­ann sem þeim er út­hlutað og bend­ir á að strand­veiðimenn hafa heim­ild til þess að veiða fjóra daga í viku, fjór­tán klukku­stund­ir á dag og 12 daga í mánuði. „Ef við erum ein­stak­lega hepp­in með veðurfar þá næst það, ann­ars ekki. Tólf dag­ar ýta okk­ur út í að róa í allskon­ar veðrum til þess að ná í þær krón­ur sem við mögu­lega get­um náð inn til að reka út­gerðir okk­ar, svona þröngt er okk­ur stakk­ur­inn sniðinn.

Vigfús Ásbjörnsson, formaður Hrollaugs.
Vig­fús Ásbjörns­son, formaður Hrol­laugs. Ljós­mynd/​Aðsend

Við meg­um hafa fjór­ar hand­færar­úll­ur um borð í bát­un­um, því ekki má nú vera hægt að ná skammt­in­um of fljótt í bát­inn. Þetta meg­um við stunda heila fjóra mánuði á ári. Strand­veiðipott­ur­inn er allt of lít­ill fyr­ir svo gott byggðarfestu­kerfi sem strand­veiðikerfið get­ur orðið verði það eflt svo um mun­ar. Þorskskammt­ur er 650 þorskí­gildi. Við erum lát­in greiða 72.000 krón­ur í rík­is­sjóð til þess að geta hafið veiðar sem er gríðarlega mik­ill pen­ing­ur fyr­ir jafn smá­ar út­gerðir og strand­veiðiút­gerðir eru. Það er al­veg ljóst að strand­veiðisjó­mönn­um er gert eins erfitt fyr­ir og mögu­legt er að gera út sína báta.“

Vig­fús tel­ur það orka tví­mæl­is að „á sama tíma og þurft hef­ur að berj­ast fyr­ir til­veru­rétti smá­báta og efl­ingu á strand­veiðikerf­inu, geta menn sem hafa yfir að ráða afla­marki nú fært 25% af því á milli fisk­veiðiára. Stimp­il­gjöld hafa verið af­num­in á skipa­söl­um sem kem­ur stór­út­gerðinni gríðarlega vel. Þessi gjöld voru 1,2 millj­arðar árin 2008-2017. Al­veg greini­legt að rík­is­stjórn­in legg­ur sig þarna virki­lega mikið fram við að styðja þessa gerð út­gerðar en sama er ekki hægt að segja um strand­veiðiút­gerðir.“

Byggðir lands­ins eiga mikið und­ir því að strand­veiðikerfið verði eflt svo um mun­ar, að sögn Vig­fús­ar sem bæt­ir við að verði kerfið eflt geti það fært ungu fólki tæki­færi til sjó­sókn­ar og nýt­ing­ar „á sinni eig­in auðlind þannig að til verði sann­gjarnt og al­vöru tæki­færi fyr­ir þjóðina til þess að dafna sem fisk­veiðiþjóð. At­vinnu­stig myndi stór­aukast.“

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: