Derek Chauvin, lögreglumaðurinn fyrrverandi sem hefur verið ákærður fyrir manndráp, hefur verið færður í hámarksöryggisfangelsi.
Vika er síðan Chauvin kraup á hálsi George Floyd, 46 ára gömlum svörtum Bandaríkjamanni, við handtöku í Minneapolis. Floyd lést í haldi Chauvin og í kjölfarið brutust út mótmæli sem hafa stigmagnast í einhverja mestu óeirðaöldu sem gengið hefur yfir í Bandaríkjunum á síðustu árum.
Chauvin átti að koma fyrir dómara í dag en fyrirtökunni hefur verið frestað um viku. Borgaryfirvöld víða í Bandaríkjunum búa sig undir frekari mótmæli næstu kvöld og nætur vegna þessa.
Hámarksöryggisfangelsið í Oak Park Hights í Minnesota er þriðja fangelsið sem hann hefur verið fluttur í frá því að hann var handtekinn á föstudag.
Yfirvöld í ríkinu segja tvær ástæður fyrir þessum tíðu flutningum. Annars vegar vegna hættu á kórónuveirusmiti og hins vegar vegna mótmæla í og við fangelsið sem hann var fluttur í um helgina.
Bandarískir fjölmiðlar greina frá því að eiginkona Chauvin hafi sótt um skilnað eftir að hann var handtekinn. Chauvin verður ekki látinn laus úr haldi nema gegn 500 þúsund dollara tryggingu, eða sem nemur tæpum 70 milljónum króna.