Hvíta-Sunna kom í heiminn á hvítasunnudag

Æðarunginn hvíti með systkinum sínum.
Æðarunginn hvíti með systkinum sínum. Ljósmynd/Aðsend

Það var sér­stök sjón sem blasti við land­eig­end­um í Árnesi í Árnes­hreppi á hvíta­sunnu­dag þegar sjald­gæf­ur hvít­ur æðar­ungi upp­götvaðist. 

Val­geir Bene­dikts­son, land­eig­andi í Árnesi, seg­ir hvíta ung­an afar sjald­gæfa og skemmti­lega sjón. 

„Þetta er mjög sjald­gæft. Ég man eft­ir að þetta hafi tvisvar gerst áður. Rosa­lega fal­leg­ir ung­ar, al­veg sér­stak­lega fal­leg­ir.“

Æðar­ung­inn var að sjálf­sögðu skírður Hvíta-Sunna. 

„Það var viðeig­andi, hann fannst nú í hreiðrinu á hvíta­sunnu­dag,“ seg­ir Val­geir en alls voru þrjú egg í hreiðrinu. 

Aðspurður hvað valdi því að ung­inn verði hvít­ur tel­ur Val­geir lík­leg­ast að um al­bínóa sé að ræða. 

„Ætli þetta telj­ist nú ekki vera al­bínói bara. Litn­ing­arn­ir eru gallaðir og hann verður hvít­ur. Þessi er nú reynd­ar ekki með rauð augu, held­ur dökk. Það er hugs­an­legt að ef hann lif­ir af í nátt­úr­unni geti þetta erfst út frá hon­um. En þeir eiga erfitt upp­drátt­ar í nátt­úr­unni, hvít­ir ung­ar. Aðrir fugl­ar, jafn­vel æðar­fugl­ar, leggja þá í einelti eða skilja þá bara eft­ir.“

Val­geir seg­ist vel hafa viljað taka ung­ann að sér og ala hann upp, en að aðstæður hafi ekki leyft það í þetta sinn. 

„Við höf­um gert það einu sinni. Það fór svo ekki vel. Þegar við sleppt­um þeim í sjó­inn þá réðu þeir ekki við það og dráp­ust. Það hefði kannski verið skemmti­legt að ala hann upp að ein­hverj­um aldri ef aðstæður hefðu leyft.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina