„Þetta var síðasta hálmstráið“

Frá mótmælunum á sunnudag.
Frá mótmælunum á sunnudag. Ljósmynd/Aðsend

„Því miður hefur forseti Bandaríkjanna ekki gert neitt sem tengist einhverju friðsamlegu síðan hann tók við völdum. Allt sem hann segir og gerir er til þess að espa fólk upp gegn hvort öðru og í staðinn fyrir að koma fólki saman og finna samstöðu reynir hann að búa til bil á milli kynþáttahópa, innflytjenda og annarra og reynir að skipta þjóðinni í lið. Sem er alveg hörmulegt.“ Þetta segir Guðrún Erla Gísladóttir, sem búsett er í úthverfi Minneapolis. 

Hörð og blóðug mótmæli hafa brotist út víða um Bandaríkin síðustu daga í kjölfar dauða George Floyd, 46 ára svarts Bandaríkjamanns, sem var myrtur af lögreglu síðasta mánudag fyrir framan verslun í Minneapolis. Fyrrverandi lögreglumaðurinn Derek Chauvin hefur verið handtekinn, en hann þrengdi að öndunarvegi Floyd með því að krjúpa á hálsi hans í meira en átta mínútur. 

Mótmælaaldan hófst í Minneapolis og hefur breiðst út um Bandaríkin öll á síðustu dögum. Víða er í gildi útgöngubann og lögreglu hefur beitt táragasi og blossahvellsprengjum. Rúmlega 4.400 mótmælendur hafa verið handteknir. 

Tók þátt í mótmælunum 

Guðrún segir mótmælin ekki hafa náð til úthverfisins sem hún býr í. Hún eigi aftur á móti vini í miðborg Minneapolis og sambýlismaður hennar á þar fjölskyldu. Hún segir að miðað við frásagnir vina og vandamanna sé ljóst að það séu aðrir en mótmælendur sem hafa ollið gríðarlegum skemmdarverkum í borginni. 

Guðrún hefur verið búsett í Minnesota frá árinu 2003.
Guðrún hefur verið búsett í Minnesota frá árinu 2003. Ljósmynd/Aðsend

„Ég hef talað við vini mína sem búa í Minneapolis og þetta eru ekki mótmælendur sem eru að valda þessum skemmdarverkum. Þetta eru skipulögð skemmdarverk af allskonar hópum sem er svolítið óhugnanlegt. Allir mótmæla mjög friðsamlega yfir daginn og ég fór sjálf og tók þátt þangað til að atvikið á brúnni gerðist, sem var ekkert annað en skipulögð hefndaraðgerð gegn mótmælendum,“ segir Guðrún og vísar þar til atviks þegar ökumaður olíuflutningabíls keyrði á fullri ferð í gegnum tálmanir á brú og í átt að fjölda mótmælenda sem  safnast hafði saman. Enginn slasaðist og hefur ökumaðurinn verið handtekinn. 

Skemmdarverkin skipulögð glæpastarfsemi  

„En það sem er óhugnanlegt eru þessi skemmdarverk. Þetta virðist vera skipulögð starfsemi og ekki fólk sem býr í þessum hverfum. Þetta litar umræðuna og tekur frá ástæðunni fyrir þessu öllu saman. Þetta eru friðsamleg mótmæli og samhugur um að þetta er ekki eitthvað sem við ætlum að standa undir, fólk vill breytingar á margra áratuga kúgun sem ákveðnir hópar í samfélaginu hafa þurft að standa undir. Það er svo margt í kerfinu sem er óréttlátt gagnvart þessum hópum. En því miður hefur athyglin öll farið í þessi ólæti og þá gleymist umræðan um hvað sé að valda þessu. Fólk er auðvitað komið á sinn síðasta þráð og þreytt á þessu ástandi, þetta virðist hafa verið síðasta hálmstráið og vonandi verður þetta til þess að það verði gerðar einhverjar breytingar á hlutunum,“ segir Guðrún og bætir við að litlar líkur séu á því að mótmælendur standi á bakvið skemmdarverkin. 

Guðrún fór að versluninni þar sem Floyd lést.
Guðrún fór að versluninni þar sem Floyd lést. Ljósmynd/Aðsend

„Það er eins og verið sé að einblína á fyrirtæki sem eru í eigu svartra eða innflytjenda, sem bendir til þess að þetta gætu ekki verið mótmælendur sem eru að gera þetta. Þetta virðist vera að breiðast út um allt í Bandaríkjunum, skipulögð glæpastarfsemi reynir að blanda sér í friðsamleg mótmæli og reynir að skapa æsing og uppnám.“

Guðrún ber Donald Trump Bandaríkjaforseta ekki góða söguna. Hún segir hann fremur valda sundrung á meðal Bandaríkjamanna en reyna að stilla til friðs. Hann taki ekki ábyrgð á gjörðum sínum og reyni að fá Bandaríkjamenn upp á móti hvor öðrum. 

Hún segir ríkisstjóra Minnesota, Tim Walz, þó hafa staðið sig vel miðað við aðstæður. 

„Okkar fylkisstjóri hefur unnið gríðarlegt starf og staðið í ströngu, í miðri kórónukrísu. Hann tekur fulla ábyrgð á því sem hann hefur ekki staðið undir og eins líka lögreglustjórinn með því að reka þessa lögreglumenn um leið, sem verður að teljast nýtt í Bandaríkjunum miðað við önnur mál. Hins vegar er ekki búið að handtaka hina þrjá og það er eitthvað sem fólk hefur verið að bíða eftir. Nú er ríkissaksóknari kominn í málið sem er allavega jákvætt,“ segir Guðrún. 

mbl.is