Heyrði í sírenum og þyrlum fyrir utan heimilið

Lögreglubifreið sést hér á Times-torgi í New York. Á auglýsingaskjá …
Lögreglubifreið sést hér á Times-torgi í New York. Á auglýsingaskjá fyrir miðri mynd stendur Black Lives Matter. AFP

„Það tók kannski steininn svolítið úr í nótt. Þetta er í þriðja sinn sem ég bý hérna í New York og ég hef aldrei áður upplifað hræðslu eða ótta hérna, en ég held að ég sé ekki alveg laus við það núna.“ Þetta segir Halla Tómasdóttir sem er búsett í New York ásamt fjölskyldu sinni, um ástandið í borginni og Bandaríkjunum öllum. 

Hörð og blóðug mót­mæli hafa átt sér stað víða um Banda­rík­in síðustu daga eft­ir dauða George Floyd, sem kafnaði þegar lög­reglumaður kraup á hálsi hans í 8 mín­út­ur og 46 sek­únd­ur. 

Halla fór yfir ástandið í Bandaríkjunum á Facebook í dag. 

„Þetta er flókin staða sem er komin upp í Bandaríkjunum og það eru ótrúlega margar hliðar á henni,“ segir Halla.

AFP

Hún segir ofbeldi og skemmdarverk aldrei vera réttlætanlegt, en að það séu mjög skiljanlegar ástæður fyrir því að svart fólk í Bandaríkjunum hafi staðið upp og mótmælt. „Og ég stend með öllum sem standa í friðsamlegum mótmælum til að berjast fyrir mannréttindum.“

Halla sagði að ekki væri annað hægt en að kalla dauða Floyd morð. „Það má segja að þetta sé kannski dropinn sem fyllti mælinn sem er búinn að vera í gangi lengi. Það eru búin að vera svo ótrúlega mörg tilfelli af ofbeldi lögreglu gagnvart svörtu fólki í langan tíma. Svo eru svo ótrúlega mörg tilfelli um hvernig svartir hafa þurft að horfast í augu við misrétti á svo margan hátt sem er kannski okkur sem erum hvít og höfum ekki lent í þessu, aldrei fundið þetta á eigin skinni, svolítið erfitt að skilja.“

Halla Tómasdóttir er búsett í New York.
Halla Tómasdóttir er búsett í New York. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Halla fór yfir sögur sem hún hefur heyrt frá samstarfsfélögum og vinum í Bandaríkjunum. 

„Hér hefur svart fólk lent í því að vera handtekið á tröppunum fyrir utan heimili sín ef þau búa í hverfum þar sem eru fleiri hvítir, það er talið að þau séu að brjótast inn. Hér hafa svartar mæður ítrekað sest niður með börnunum sínum og sagt „passaðu þig þegar þú ferð út á götu, ekki setja hettuna á hausinn, ekki hafa hendur í vösum, aldrei mótmæla neinu óréttlæti eða neinu sem er sagt við þig því þú gætir verið drepinn.“ Hver einasta móðir hlýtur að geta sett sig í þau spör hve erfitt það er að horfa á svona hluti gerast aftur og aftur,“ sagði Halla. 

„Það eru svona sögur sem allir hafa upplifað til svo langs tíma sem er kannski erfitt fyrir okkur Íslendinga og jafnvel alla utan Bandaríkjanna að skilja hvað þessi barátta svartra og fólks með litað skinn yfir höfuð, hefur verið löng og ströng í Bandaríkjunum. Það sem er að gerast núna og er að brjótast út hefur verið að byggjast upp yfir mjög langan tíma.“

Frá aðgerðum lögreglu á Times-torgi í New York í gærkvöldi …
Frá aðgerðum lögreglu á Times-torgi í New York í gærkvöldi þar sem átök brutust út. AFP

Trump gengið fram með óskiljanlegum hætti 

Þá segir Halla að ástandið í Bandaríkjunum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru hafi mögulega aukið reiði fólks. Mikið atvinnuleysi, aukin tíðni andlegra veikinda og aðrar afleiðingar kórónuveirufaraldursins hafi verið Bandaríkjamönnum erfiðar og lítið hafi þurft til til að fylla mælinn. 

„Kannski er stærsta undirliggjandi ástæðan að fólk upplifir í mjög langan tíma að það búi við mjög brotið kerfi,“ segir Halla. 

Þá talaði hún einnig um viðbrögð Donalds Trump Bandaríkjaforseta við mótmælunum. 

Lögreglumenn standa vaktina fyrir utan verslun Foot Locker í New …
Lögreglumenn standa vaktina fyrir utan verslun Foot Locker í New York í gær. AFP

„Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort að svona mótmæli myndu brjótast út ef að Trump myndi tapa næstu kosningum eða bara eftir að hann var kjörinn. Hann er í rauninni búinn að ganga fram með alveg ótrúlegum hætti og óskiljanlegum að mínu mati. Það tók líklega steininn úr í gær þegar hann hélt blaðamannafund og sagðist vera forseti laga og reglna og lýsti því yfir að hann ætlaði hreinlega að beina eigin her gegn sínu eigin fólki. Sumir vilja meina að þetta hafi í rauninni bara verið yfirlýsing um að lýðræðið hér í landi sé búið og að við sé að taka herræði,“ sagði Halla. 

„Úr varð erfiðasta nótt í Bandaríkjunum hingað til. Hér í kringum heimilið okkar heyrðum við í sírenum og þyrlum og hreinlega hrópum og köllum mótmælenda og lögreglu. Ofbeldið varð mikið hér eins og í yfir hundrað borgum í Bandaríkjunum og það svo sem var að ágerast alla helgina, á meðan forsetinn sagði ekkert, en það fór úr öllum böndum í nótt.,“ sagði Halla, en í New York hefur verið sett á útgöngubann líkt og víða annars staðar í Bandaríkjunum.  

mbl.is