Stjórnandi Lúðrasveitar Reykjavíkur segir leiðinlegt að veggjakrot sé notað til þess að koma skilaboðum á framfæri, en þegar komið var að Hljómskálanum á þriðjudag blöstu þar við skilaboðin Black Lives Matter, slagorð sem notað er í réttindabaráttu svartra.
Lárus Halldór Grímsson segir í samtali við mbl.is að reglulega sé krotað á veggi Hljómskálans, en að borgin sjái gjarnan um að mála yfir slíkt.
„Það er ömurlegt að fólk sé að þessu og undarlegt að ekkert sé hægt að gera í þessu.“
Mikil ólga er í Bandaríkjunum vegna dráps lögreglunnar á George Floyd. Samstöðumótmæli voru haldin á Austurvelli í Reykjavík síðdegis í gær og fóru þau friðsamlega fram.