Styrkurinn í fiskveiðikerfinu

Ólafur Helgi Marteinsson framkvæmdastjóri Ramma og formaður Samtaka fyrirtækja í …
Ólafur Helgi Marteinsson framkvæmdastjóri Ramma og formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi

„For­veri minn á stóli for­manns vann mjög gott starf. Ég mun reyna að halda því starfi áfram og rísa und­ir minni ábyrgð, sem er að hlusta á sjón­ar­mið fé­lags­manna og vinna að fram­gangi þeirra allra. Það á við um út­gerð, vinnslu, sölu og fisk­eldi,“ svar­ar Ólaf­ur Helgi Marteins­son, fram­kvæmda­stjóri Ramma hf., spurður hvort hann hafi ein­hverj­ar sér­stak­ar áhersl­ur sem hann muni vinna að sem formaður Sam­taka fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi, en hann var kjör­inn nýr formaður sam­tak­anna á aðal­fundi þeirra í síðustu viku.

Alla tíð við sjáv­ar­út­veg

„Það skipt­ir ekki máli hver á í hlut, enda bauð ég mig fram til að þjóna öll­um í sam­tök­un­um. Ég held að aðal­atriðið sé að reyna að gera hlut­ina vel og vanda sig í öllu sem maður tek­ur sér fyr­ir hend­ur. Það er að mínu viti eitt stærsta hags­muna­mál sam­taka í sjáv­ar­út­vegi að sjáv­ar­auðlind­in sé nýtt í sátt við um­hverfi og virði henn­ar sé sem mest fyr­ir þjóðar­hag. Það er eðli­legt að tek­ist sé á um hvernig því verði best fyr­ir komið. Í slíkri umræðu á megin­áhersla SFS að vera á upp­lýs­andi og skýra miðlun upp­lýs­inga,“ seg­ir hann.

Hinn nýi formaður hef­ur verið fram­kvæmda­stjóri Ramma frá ár­inu 1991 og kveðst hafa verið tengd­ur haf­inu um langt skeið. „Ég hef alla tíð starfað við sjáv­ar­út­veg og unnið þar flest störf til sjós og lands. Ég keypti minn fyrsta bát 1983 ásamt föður mín­um og bróður. Það má segja að þá hafi ten­ing­un­um verið kastað. Breyt­ing­arn­ar sem orðið hafa í sjáv­ar­út­vegi frá því kvóta­kerfið var sett á eru gríðarlega mikl­ar. Framþró­un­in á flest­um sviðum er nán­ast ótrú­leg. Það er auðvelt að heill­ast af at­vinnu­grein sem þess­ari,“ seg­ir hann.

Mjótt á mun­um

Ólaf­ur Helgi sigraði í for­manns­kjör­inu með naum­ind­um er hann fékk 49,99% at­kvæða, en Ægir Páll Friðberts­son, fram­kvæmda­stjóri Brims hf., hlaut 49,05% at­kvæða. Tók Ólaf­ur Helgi því við embætti for­manns af Jens Garðari Helga­syni sem gegnt hef­ur starf­inu frá stofn­un sam­tak­anna árið 2014.

Um er að ræða sögu­leg­an aðal­fund fyr­ir þær sak­ir að þetta var í fyrsta sinn í sögu Sam­taka fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi sem kosið var milli fram­bjóðenda. Einnig má geta þess að held­ur sjald­gæft var að kosn­ing­ar væru haldn­ar um for­mann­sembættið hjá fyr­ir­renn­ara sam­tak­anna, LÍÚ.

Spurður hvort jöfn úr­slit séu til marks um skort á sam­stöðu inn­an sam­tak­anna, seg­ir Ólaf­ur Helgi svo ekki vera. „Nei, kosn­ing­in er ekki til marks um að það sé lé­leg samstaða inn­an sam­tak­anna. Það er styrk­ur fyr­ir sam­tök­in að menn bjóði sig fram í trúnaðar­störf, slíkt sýn­ir að menn láta sér annt um þau. Styrk­ur okk­ar er að geta rætt mál­in, kosið og kom­ist að niður­stöðu og unnið út frá henni.“

Þegar litið er fram á við seg­ir Ólaf­ur Helgi ljóst hver helstu verk­efni verða á næst­unni enda hafa kjara­samn­ing­ar sjó­manna verið laus­ir frá því í des­em­ber. „Það sem blas­ir við núna er að viðræður við sjó­menn um kjara­samn­ing munu taka tíma á næst­unni. Viðræður hafa legið aðeins í lág­inni vegna ástands­ins á und­an­förn­um vik­um. En ég geri ekki ráð fyr­ir öðru en að menn fari að taka upp þráðinn á nýj­an leik.“

Gera meira úr hverj­um fiski

Það er óhætt að segja að vet­ur­inn sem nú er að baki hafi haft veru­leg áhrif á ís­lenska hag­kerfið og all­ar út­flutn­ings­grein­arn­ar að ein­hverju leyti. Fisk­ur hef­ur þó haldið áfram að vera flutt­ur á er­lenda markaði þrátt fyr­ir að magn og um­gjörð flutn­ing­anna kunni að hafa breyst.

„Það má kannski segja að veiðar, vinnsla og sala á fiski sé eitt­hvað sem við Íslend­ing­ar kunn­um harla vel. Og okk­ur tekst að gera meira úr hverj­um fiski en flest­um öðrum þjóðum. Grund­völl­ur­inn að sterkri stöðu okk­ar er það kerfi sem við höf­um á veiðunum og það hef­ur komið ber­lega í ljós á und­an­förn­um mánuðum,“ seg­ir Ólaf­ur Helgi.

Spurður hvernig sé best að hlúa að at­vinnu­grein­inni nú, svar­ar hann: „Besti stuðning­ur­inn sem hægt er að biðja um í rekstri fyr­ir­tækja er að fyr­ir­sjá­an­leik­inn sé tryggður. Það á ekki bara við um rekst­ur fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi og fisk­eldi, held­ur í rekstri allra fyr­ir­tækja. Þá má ekki gleyma þeirri staðreynd að 98% ís­lenskra sjáv­ar­af­urða eru seld á er­lend­um mörkuðum. Þar er sam­keppn­in hörð um hylli viðskipta­vina. Þess þarf því að gæta að rekstr­ar­um­hverfi sjáv­ar­út­vegs hér á landi íþyngi ekki um of.“

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: