Matseðillinn hjá Sjávarpakkhúsinu er í stöðugri þróun og leggur Sara Hjörleifsdóttir einstakan metnað í val á hráefni.
Veitingastaðurinn Sjávarpakkhúsið á Stykkishólmi þykir vera í algjörum sérflokki enda er þar lagður einstakur metnaður í matseldina. Sara Hjörleifsdóttir, sem á reksturinn með manni sínum og stendur jafnan vaktina í eldhúsinu, segir að prentstofan sem Sjávarpakkhúsið verslar við hljóti að vera ánægð með þennan viðskiptavin enda þarf að endurnýja matseðlana ótt og títt í takt við hvaða hráefni er best hverju sinni.
„Þetta er veitingahús sem rekið er af blöndu af metnaði, sérvisku og ástríðu frekar en af brjálaðri gróðahugsjón,“ útskýrir Sara sem m.a. lét Svansvotta veitingastaðinn og leggur sig fram við að nýta hráefni úr nærsamfélaginu. „Við þekkjum nær alla okkar birgja persónulega; fáum salatið okkar og kryddjurtirnar frá Áslaugu á Lágafelli, mjólkurvörurnar frá Erpsstöðum, skelfiskinn frá Símoni skeljabónda og fiskurinn kemur allur frá honum Begga fisksala sem kaupir aflann á markaði, beint af breiðfirskum bátum.“
Það gæti komið lesendum á óvart, í ljósi þess hve mikill metnaður er lagður í matseldina hjá Sjávarpakkhúsinu, að Sara er ekki menntaður kokkur heldur er hún uppeldisfræðingur. Hún hefur aftur á móti margra ára reynslu úr veitingageiranum og hefur lagt sig fram við að fá til liðs við sig, í lengri og skemmri tíma, hæfileikafólk sem hefur haft alls kyns þekkingu að miðla. „Ég hef verið svo heppin að fá í vinnu til mín fullt af frábæru fagfólki hvaðanæva úr heiminum sem allt hefur kennt mér mikið, það er eitt af því skemmtilega við starfið að þú getur endalaust lært eitthvað nýtt og spennandi.“
Á matseðlinum má finna rétti sem virðast svo sannarlega ferðalagsins virði. Á vormatseðlinum má t.d. velja forrétti á borð við bakaða léttgrafna bleikju með piparrótarkremi, sýrðu selleríi og hneturaspi, og saltfisk-krókettur með graslauksmæjónesi, og aðalrétti eins og bláskel með saffran, hvítvíni, hvítlauk, sólselju, smjöri og súrdeigsbrauði, eða saltaða löngu með kartöflumús, karamelluðu smjöri, döðlum, möndlum og sýrðri rauðrófu. Hafa veitingastaðir hlotið Michelinstjörnur fyrir minna, og segir það sína sögu um að Sara sættir sig ekki við neinar málamiðlanir í eldhúsinu að engir kjötréttir eru á matseðlinum:
„Ég er ekki mikið fyrir að synda með straumnum, mér leiðist svo allt sem er venjulegt. Ég tók því fljótlega þá stefnu að vera ekki með svona klassískan íslenskan matseðil þar sem allt er í boði, heldur fara djarfari leið og bjóða einungis upp á sjávarfang. Við erum heppin hérna við Breiðafjörðinn því allt í kringum okkur er að finna heimsins besta hráefni.“
Er ekki nóg með að maturinn sé framúrskarandi heldur skapar Pakkhúsið sjálft notalega umgörð utan um matarupplifunina. Húsið var byggt upp úr aldamótunum 1900 sem vöruhús fyrir fiskafurðir en var síðar notað sem veiðarfærageymsla og beitingaskúr. Eins og svo mörg önnur hús í Stykkishólmi er Pakkhúsið fögur bygging og stílhrein, en fyrir framan veitingastaðinn hefur verið smíðaður stór pallur með óviðjafnanlegt útsýni yfir hafnarsvæðið. „Fyrir um tuttugu árum tóku tveir eldri menn sig til, tóku húsið í gegn og ætluðu að hafa þar notalegan stað þar sem þeir gætu spilað á píanó og harmonikku og selt kaffi sér til gamans. Gallinn var sá að kaffihúsið naut of mikilla vinsælda svo þessir herramenn hættu rekstri svo þeir gætu einbeitt sér að því sem þeir hefðu gaman af,“ útskýrir Sara. „Þá varð húsið notað sem sumarhús, allt fram til 2012 að það var selt stórhuga mönnum úr Reykjavík sem notuðu bygginguna sem miðasölu fyrir RIB-bátasiglingar út á fjörðinn.“
Þar var Sara ásamt vinkonu sinni fengin til að halda utan um veitingasölu en bátaútgerðin reyndist skammlíf og fékk Sara lyklana að húsinu í árslok 2012. Hefur veitingareksturinn gengið glimrandi vel síðan þá og meira að segja tekist að halda Sjávarpakkhúsinu opnu í gegnum kórónuveirufaraldurinn. Nú þegar landsmenn eru byrjaðir að fara á kreik og ferðast um Ísland segir Sara að aðsóknin sé nokkuð góð, og verið að lengja þjónustutíma veitingastaðarins í takt við vaxandi eftirspurn en vissara er að panta borð fyrirfram til að komast örugglega að. „Undanfarin sumur hafa á að giska 90% viðskiptavina okkar verið útlendingar, en nú hefur það vitaskuld breyst og ánægjulegt að sjá hvað Íslendingar hafa verið duglegir að koma til okkar um helgar. Með sumrinu á þeim vafalítið eftir að fjölga og vonandi að innlendir ferðamenn staldri lengur við á svæðinu enda margt að skoða og sjá.“