Sala á bókum um kynþætti og and-rasisma hefur stóraukist á síðustu vikum og dögum samhliða mótmælum gegn kynþáttafordómum og lögregluofbeldi í Bandaríkjunum.
Í frétt New York Times kemur fram að flestar bækur á metsölulistum Amazon og Barnes & Nobles fjalli um kynþætti og tengd málefni. Fyrir rúmri viku voru engar slíkar bækur á þessum metsölulistum.
Fram kemur í frétt NYT að lesendur virðist vilja fræða sig um málefni tengd kynþáttum, þá sérstaklega um sögu kynþáttafordóma og bækur um and-rasisma.
Mótmælin í Bandaríkjunum hafa nú staðið yfir á aðra viku. Mótmælin hófust eftir að George Floyd, 46 ára, lést þegar lögreglumaður kraup á hálsi hans í tæpar níu mínútur með þeim afleiðingum að hann kafnaði.