Flosi Þorgeirsson, gítarleikari hljómsveitarinnar HAM, hefur starfað sem leiðsögumaður í nokkur ár ásamt öðru. Hann er einstaklega fróðleiksþyrstur maður, svo fróðleiksþyrstur að hann fer ekki í ferðir með fólk ef það vill ekki fróðleik líka.
„Ég hef verið í áhugaleikfélagi í mörg ár og lært þar að beita bæði rödd og líkama. Þetta hjálpar allt alveg gífurlega í þessu starfi,“ segir hann með sinni djúpu og skýru rödd, sannkallaðri útvarpsrödd eins og sagt er.
Spurður að því hvort Flosi eigi sér eftirlætisstaði á Vesturlandi nefnir hann Rauðasand án þess að hika.
„Rauðisandur er alltaf í uppáhaldi og allt svæðið þar í kring. Þar er gífurlega fallegt, friðsælt og einnig er þar heilmikil saga. Kaffihúsið á Rauðasandi er líka mjög gott og alveg óhætt að mæla með veitingum og þjónustu þar. Þá er algerlega nauðsynlegt að koma að Látrabjargi, að minnsta kosti einu sinni á ævinni, og ferðin inn í Selárdal er afar falleg. Ég hef því miður enn ekki komið á Hornstrandir en það er næst á listanum. Fossinn Dynjanda þurfa svo allir að sjá með eigin augum. Bæirnir eru einnig margir vel þess virði að heimsækja. Ísafjörð þekkja allir en ég mæli með að kíkja á Suðureyri sem er einstaklega fallegt þorp með mörgum gömlum og fallegum húsum. Bæjarstæðið í Bolungarvík er einnig ægifagurt.“
Þegar hann er spurður hvert á Vesturland leiðsögumaðurinn Flosi myndi fara með fróðleiksþyrsta Íslendinga nefnir hann aftur uppáhaldsstaðinn sinn Rauðasand.
„Þar gæti ég til dæmis sagt frá Sjöundármálinu og ránsferðum enskra sjóræninga þar. Á Látrabjargi yrði maður að nefna eitt mesta björgunarefrek sem unnið hefur verið hér við land, þegar breski togarinn Dhoon strandaði þar í skelfilegu veðri í desember 1947. Þar myndi stórskemmtileg ævisaga vitavarðarins Ásgeirs Erlendssonar: Ljós við Látraröst nýtast vel en hann tók þátt í þessari björgun. Inni í Selárdal er svo af nógu að taka en þar bjó Gísli á Uppsölum, frægasti einyrki landsins, og einnig gæti sorgarsaga prestsins Páls Björnssonar (1621-1706) hreyft við fólki. Hann var algjört afarmenni og hefði getað nýst þjóð sinni svo vel en geðsjúkdómur konu hans heltók hann alveg og hann varð sannfærður um að djöfullinn væri valdur að þessu. Að undirlagi Páls voru hvergi fleiri brenndir fyrir galdra en einmitt á Vestfjörðum. Góður og fróður leiðsögumaður sem er vel undirbúinn á að geta gætt hrjóstrugustu mela lífi og göldrum. Af nógu er að taka. Ef ekki mannkynssagan þá grípur maður til jarðsögunnar en Ísland er jú alveg magnað land í því tilliti,“ segir Flosi sem rekur ættir sínar að mestu til Vestfjarða.
„Föðurafi minn var frá Ásahreppi í Rangárvallasýslu og þar ólst pabbi upp en annars er restin af forfeðrum mínum að vestan. Móðurættin úr Ísafjarðardjúpi, mamma ólst upp á Suðureyri í Súgandafirði en föðuramma mín fæddist í Kollsvík á milli Patreksfjarðar og Breiðafjarðar. Það er reyndar afar gaman að koma í Kollsvík, mjög fallegt og friðsælt og þarna var heilmikil verstöð, enn má sjá menjar um það. Ég leita mjög í söguna því það gæðir staðina lífi og tilfinningum. Ef þú kemur að rústum Sjöundár og veist ekkert, þá sérðu bara tóftir, en hafir þú lesið Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson og kynnt þér morðmálið, þá verður upplifunin mun sterkari. Þetta á alls staðar við,“ segir hann og óhætt er að fullyrða að þetta taki nú flestir landsmenn undir.
Flosi segist almennt reyna að spara sér peningana þegar hann ferðast. Mikill peningur fari í eldsneytiskostnað en blessunarlega sé til fullt af stöðum þar sem lítið eða ekkert kostar að kíkja inn.
„Nýlega heimsótti ég til dæmis lítið gallerí/vinnustofu sem Marsibil Kristjánsdóttir rekur á Þingeyri, ég mæli alveg með því, einnig er frábært kaffihús, Simbahöllin, á Þingeyri sem er rekið af hjónum frá Danmörku og Belgíu. Þar eru afbragðsgóðar belgískar vöfflur og súkkulaði. Á mörgum svona stöðum, kaffihúsum, verslunum og litlum söfnum lendir maður einnig oft á spjalli við fólk sem þekkir til. Það er í raun sérstakt hvað Íslendingar þekkja oft til sögunnar og vita hvaðan þeir eru. Til dæmis hafa margir enn sterka skoðun á Spánverjavígunum veturinn 1615-1616 og einatt bölvar fólk sýslumanninum Ara í Ögri eða tekur afstöðu með honum, held samt að flestir séu í fyrrnefnda hópnum,“ segir gítarleikarinn, sagnfræðingurinn og leiðsögumaðurinn Flosi að lokum.