Heildarfjöldi farþega hjá Icelandair í maí var rúmlega þrjú þúsund samanborið við um 419 þúsund í fyrra. Fækkaði þeim um 99% á milli ára, á sama tíma og heildarframboð minnkaði um 98%.
Farþegar hjá Air Iceland Connect voru tæplega sex þúsund í maímánuði og fækkaði um 77% á milli ára. Framboð minnkaði um 80%.
Þetta kemur fram í nýjustu flutningatölum Icelandair.
Bent er á að nær engin eftirspurn hafi verið eftir alþjóðafarþegaflugi undanfarna mánuði vegna kórónuveirufaraldursins og þeirra ferðatakmarkana sem hafa verið í gildi um allan heim.
Icelandair hafi þó lagt áherslu á að tryggja lágmarksflugsamgöngur til og frá landinu í samstarfi við stjórnvöld og jafnframt viðhaldið fraktflutningum sem hafi dregist mun minna saman. Félagið hafi einnig tekið að sér sérverkefni bæði í frakt- og leiguflugi.
Tekið er fram að seldir blokktímar í leiguflugstarfsemi félagsins drógust saman um 21% á milli ára í maímánuði. Fraktflutningar drógust í heildina saman um 20% á milli ára. Á helstu flutningaleiðum hefur allt framboð verið að fullu nýtt og samdrætti í farþegaflugi verið mætt með aukaferðum af fraktvélum félagsins til Evrópu og Bandaríkjanna.
„Þannig hefur félagið náð að tryggja útflutning og verðmæti sjávarafurða og annarra útflutningsvara og flutt inn nauðsynjavörur til Íslands. Þá hafa Icelandair Cargo og Loftleiðir Icelandic tekið að sér sérverkefni í frakt- og leiguflugi. Sem dæmi má nefna rúmlega 50 fraktflug í maí með lækninga- og hjúkrunarvörur frá Kína til Þýskalands og Bandaríkjanna fyrir aðila í heilbrigðisþjónustu í Evrópu og Norður-Ameríku,“ segir í tilkynningu félagsins.
Haft er eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair Group, að ánægjulegt sé að sjá útsjónarsemi og dugnað starfsfólks þvert á fyrirtækið við að grípa þau tækifæri sem gefist hafi, í þeirri stöðu sem nú ríki í alþjóðaflugi.
„Við höfum tekið að okkur sérverkefni á sviði fraktflutninga- og leiguflugs, sem eru óvenjuleg og flókin í útfærslu, en allir hafa lagst á eitt að leysa. Árangurinn endurspeglast í flutningatölum maímánaðar þar sem leigu- og fraktflug dróst einungis saman um 20% á milli ára á meðan farþegaflug til og frá Íslandi og tengiflug yfir hafið voru í algjöru lágmarki.
Nú sjáum við fram á að markaðir séu að opnast fyrir farþegaflug á ný og við vonumst til að geta hafið daglegt flug til nokkurra lykiláfangastaða eftir 15. júní. Við erum tilbúin að bregðast hratt við um leið og ferðatakmörkunum verður aflétt og eftirspurnin tekur við sér.“