Hagnaður Vinnslustöðvarinnar 1,2 milljarðar

Vinnslustöðin hefur fjárfest fyrir 11,3 milljarða á undanförnum fimm árum. …
Vinnslustöðin hefur fjárfest fyrir 11,3 milljarða á undanförnum fimm árum. Meðal fjárfestinganna var nýr Breki VE. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Rekstur Vinnslustöðvarinnar hf. skilaði hagnaði upp á um 9 milljónir evra, jafnvirði 1,2 milljarða króna, á árinu 2019. Þá nam framlegð samstæðunnar 2,9 milljörðum króna og jókst um 8,4% frá fyrra ári og hefur aldrei verið meiri í evrum talið, að því er fram kemur í færslu á vef Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum. Þá segir að árangurinn hafi náðst þrátt fyrir loðnubrest á síðasta ári og að lítilfengleg humarvertíð væri ekki svipur hjá sjón.

„Mikilvæg forsenda góðrar rekstrarniðurstöðu er vel heppnaðar fjárfestingar undanfarinna ára,“ segir í færslunni og er bent á að Vinnslustöðin hefur fjárfest fyrir um 86 milljónir evra eða 11,3 milljarða króna á síðastliðnum fimm árum. Þar af 9,1 milljarð króna í varanlegum rekstrarfjármunum, svo sem Breka VE, nýju uppsjávarfrystihúsi, nýrri frystigeymslu og endurnýjun í skipaflotanum.

Félagið er sagt hafa skilað hagnaði öll ár frá 2000 að einu ári undanskildu og störf voru 170 árið 2000 en 315 á árinu 2019.

Uppgjör félagsins fyrir 2019 var kynnt á aðalfundi þess í síðustu viku og samþykkti aðalfundurinn að hluthöfum yrðu greiddar 5 milljónir evra, um 750 milljónir króna, í arð vegna ársins 2019. Þá jafngildir arðurinn 3% ávöxtun á markaðsvirði hlutafjár. „Hliðstætt hlutfall var 1,5% vegna arðgreiðslna fyrir árið 2018.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: