Skoðaðu fegurð landsins af hestbaki

Fjaran hentar mjög vel fyrir reiðtúra og hægt að spretta …
Fjaran hentar mjög vel fyrir reiðtúra og hægt að spretta úr spori.

Jóhanna Bára Gestsdóttir og fjölskylda fara með ferðalanga í ógleymanlega reiðtúra eftir strandlengju Snæfellsness. 

Á bænum Lýsuhóli á Snæfellsnesi er löng hefð fyrir því að taka vel á móti gestum. „Þetta byrjaði hjá foreldrum mínum, sem áttu bæinn og hugkvæmdist í kringum 1980 að innrétta þrjú herbergi uppi á háalofti sem gistirými fyrir ferðalanga,“ segir Jóhanna Bára Ásgeirsdóttir sem í dag stýrir rekstrinum með manni sínum Agnari Gestssyni. „Við tókum við býlinu árið 1993 og keyptum um leið jörðina sem áður hafði verið leigujörð í eigu hins opinbera. Að eiga jörðina sjálf auðveldaði okkur að ráðast í frekari uppbyggingu og byrjuðum við á að bæta við nokkrum litlum sumarhúsum. Í dag eru á Lýsuhóli ellefu smáhýsi af ýmsum stærðum og gerðum, þúsund fermetra reiðhöll, hesthús og matsalur.“

Notalegt andrúmsloft einkennir Lýsuhól og spanna sumarhúsin allt frá því að vera nýtískuleg rými þar sem slaka má á í heitum potti og njóta útsýnisins, yfir í skemmtilega lummulega bústaði af klassískustu gerð með panelklædda veggi og tilheyrandi. Allir leggjast á eitt við að hugsa vel um gestina og ræður Jóhanna m.a. ríkjum í eldhúsinu þar sem hún útbýr bæði morgunverð og kvöldverð. „Ég fer þá leið að hafa heimilislegan mat og nóg af honum. Hingað til höfum við haft þann háttinn á að bjóða upp á hlaðborð með súpu, aðlarétti og eftirrétti en í sumar þurfum við að breyta til enda ekki vel séð að fólk deili áhöldum þegar það skammtar sér á disk. Áherslurnar í matseldinni verða samt áfram þær sömu,“ útskýrir Jóhanna.

Heimilislegur matur er eldaður á Lýsuhóli og hann ríkulega útilátinn.
Heimilislegur matur er eldaður á Lýsuhóli og hann ríkulega útilátinn.

Í návígi við náttúruna

Hestarnir eru í aðalhlutverki á Lýsuhóli og boðið upp á reiðtúra sem spanna allt frá klukkustund upp í sjö daga leiðangra. Í lengstu ferðunum er riðið um allt Snæfellsnesið en knaparnir sóttir í lok dags og ferjaðir heim á Lýsuhól til að nærast, hvílast og sofa í mjúkum rúmum. Það er stutt að fara frá bænum niður að ströndinni þar sem ríða má á sléttum sandinum en þar eru kjöraðstæður til að leyfa hestunum að spretta úr spori. „Við reynum að hafa hópana smærri frekar en stærri svo að þeir sem eru óvanir geti farið sér hægar og fengið gott ráðrúm til að venjast hestinum á meðan reyndari knapar geta riðið á þeim hraða sem þeim líkar,“ útskýrir Jóhann og bætir við að reynt sé að tímasetja brottför frá Lýsuhóli í samræmi við flóð og fjöru.

Í venjulegu árferði eru það nær eingöngu erlendir ferðamenn sem koma í hestaferðir á Lýsuhóli en Jóhanna vonar að það breytist í sumar og að innlendir gestir láti sjá sig. Hún segir fjölda Íslendinga eiga eftir að upplifa það að sjá landið af hestbaki og upplagt að nota tækifærið á ferðalagi um Vesturland til að fara í reiðtúr. „Margir eiga þess ekki kost að komast á hestbak nema mögulega í gegnum vin eða ættingja sem er í sportinu. En það er ekki endilega skynsamlegt fyrir óreyndan knapa að fara á bak á viljugum hesti sem er kannski vanari því að hafa mjög færan knapa í söðli.“

Á Lýsuhóli má fá lánaðan hlífðarfatnað og skó ef þess þarf en flestum nægir að vera í þægilegum fatnaði sem hæfir veðri og hentar til útivistar. Spurð hversu langan reiðtúr óvanir ráða við segir Jóhanna að tveir til þrír tímar séu hæfileg lengd. „Fyrsta hálftímann er fólk að venjast hestinum og fer svo að ná betri tökum á því að vera á baki og njóta upplifunarinnar,“ útskýrir hún en bætir við að byggja þurfi upp þol til að ráða við lengri reiðtúra, ellegar sætta sig við harðsperrurnar. „Eina leiðin til að byggja upp þolið er að fara oftar á bak, eða gera eins og ég geri og einfaldlega láta sig hafa það að hafa harðsperrur í nokkra daga á eftir.“

Hugulegt herbergi þar sem gott er að hvílast eftir reiðtúr.
Hugulegt herbergi þar sem gott er að hvílast eftir reiðtúr.

Slakað á í ölkelduvatni

Ef kroppurinn er aumur eftir reiðtúrinn er upplagt að láta sig síga ofan í heitan pott á Lýsuhóli eða skjótast í Lýsuhólslaug, eða Lýsulaugar eins og þær eru nú oftar kallaðar. Um er að ræða heitar laugar steinsnar frá býlinu þar sem búið er að byggja upp útilaug, heita potta og búningsklefa. „Laugarnar eru fylltar með heitu ölkelduvatni sem kemur þar upp úr jörðu og veitir það sérstaka upplifun þar sem vatnið er heitt og grænt vegna grænþörunganna sem í því eru og maður finnur hvað það er mjúkt. Engu er blandað saman við vatnið heldur er lauginni haldið hreinni með sírennsli,“ segir Jóhanna. „Þá er stutt í ágætan golfvöll, og úrval rómaðra veitingastaða í næsta nágrenni ef gestir myndu vilja prófa eitthvað annað en plokkfiskinn og hakkabollurnar sem ég elda.“

Agnar og Jóhanna hafa byggt fyrirtæki sitt upp af metnaði.
Agnar og Jóhanna hafa byggt fyrirtæki sitt upp af metnaði.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: