Karlmaður, sem kveðst vera Ku Klux Klan-leiðtogi og keyrði bíl inn í hóp þar sem fólk hafði safnast saman gegn kynþáttafordómum og lögregluofbeldi í Bandaríkjunum, á yfir höfði sér ákæru fyrir hatursglæpi.
Atvikið átti sér stað í borginni Richmond í Virginu-ríki á sunnudag.
Maðurinn ók þá glæfralega inn í hóp mótmælenda en einn þeirra meiddist við það. Bráðaliðar könnuðu ástand þess sem keyrt var á en sá neitaði að fara á spítala.
Í yfirlýsingu frá lögreglu kemur fram að maðurinn, Harry H. Rogers, verði ákærður fyrir líkamsárás og skemmdarverk. Auk þess verði hann líklega ákærður fyrir fleiri brot.
Maðurinn þandi vélina og ók inn í mannhafið. Lögregla segir að sjálfur hafi Rogers greint frá því að hann væri leiðtogi Ku Klux Klan. Rannsókn lögreglu á samfélagsmiðlum Rogers bendir til þess að hann hafi eitthvað til síns máls.
Ku Klux Klan eru samtök í Bandaríkjunum sem halda fram yfirburðum hvíta kynstofnsins. Þau eru þekkt fyrir hatur sitt á blökkumönnum, gyðingum og hinsegin fólki, sem og fyrirlitningu á ýmsum öðrum minnihlutahópum.