Hér áður fyrr var mjög algengt að íslenskar fjölskyldur tækju sér sunnudagsbíltúr út fyrir bæinn, gjarna með nesti og kaffi á brúsa. Nú hefur eitthvað dregið úr þessu og þá eru það frekar stórverslanir á borð við Costco og Ikea sem verða fyrir valinu á frídeginum en hvers vegna ekki að sleppa því og skreppa frekar í bíltúr í Borgarfjörð?
Eftirfarandi eru 10 hugmyndir að skemmtilegum hlutum til að sjá og skoða í sunnudagsbíltúr um Borgarfjörð.
Á Háafelli er unnið að verndun og viðhaldi geitastofnsins, sem löngum hefur verið í útrýmingarhættu hér á landi. Gestir fá góðar móttökur hjá geitunum, sem eru mjög mannelskar. Hægt er að taka geitur í fóstur og taka þannig þátt í að vernda stofninn.
Á býlinu er einnig hægt að kaupa margs konar geitaafurðir, baðvörur, krem og sápur, skinn og handverk. Þar má einnig finna rósagarð með um 180 tegundum rósa ásamt öðrum yndisgróðri sem er ómissandi fyrir alla garðálfa og rósaunnendur að sjá og upplifa.
Önnur dýr á bænum eru hestar, kindur, landnámshænur, silkihænur, hundar og kettir.
Setrið er opið frá 1. júní til 31. ágúst frá 13-18 og síðan allt árið eftir samkomulagi.
Norðan Deildartunguhvers er að finna stórglæsilegan arkitektúr og fínan lúxus hjá náttúruböðunum á Kraumu. Náttúrulaugarnar innihalda tært vatn, beint úr hvernum, sem kælt er með vatni undan öxlum Oks. Laugarnar eru sex talsins, fimm heitar og ein köld. Á Kraumu er einnig flottur veitingastaður þar sem lögð er áhersla á að vinna úr hráefnum sem koma frá bændum úr grenndinni. Krauma er staður sem sameinar náttúruna og arkitektúr með einstökum hætti og þar ættu allir að koma við.
Flestir Íslendingar kannast við Reykholt, enda er það einn merkasti sögustaður landsins, frægast vegna búsetu Snorra Sturlusonar 1206-1241. Í Reykholti er forn laug, Snorralaug, þar sem Snorri er talinn hafa setið og hvílt sig frá skriftum, mögulega Krauma þess tíma. Á Snorrastofu er boðið upp á sýningar, leiðsögn og fyrirlestra. Öflugt tónlistarlíf er í Reykholtskirkju. Sígild tónlist í sögulegu umhverfi – Reykholtshátíð er tónlistarhátíð sem haldin er í lok júlí ár hvert.
Á rúntinum um Borgarfjörð er um að gera að renna við í Sólbyrgi. Þar er garðyrkjustöð sem ræktar að mestu jarðarber en þar má einnig finna annað brakandi ferskt góðgæti úr náttúrunni. Ýmislegt er í boði á hverju sumri og ef þið hafið ekki tíma til að stoppa lengi er hægt að stoppa við í litlum kofa við veginn og velja sér jarðarber, salöt, grænmeti og kryddjurtir. Svo má setja pening í bauk og halda rúntinum áfram. Ekkert stress.
Sveitahótelið við Hraunsnef er alveg með því krúttlegasta sem hægt er að finna í Borgarfirðinum og þangað er sérstaklega gaman að koma með krakka. Dýrin á Hraunsnefi ganga frjáls um svæðið en þar eru landnámshænur, heimalningar, hundur, kisa og kusur á vappi. Allt dýrakjöt er heimaalið af bændunum á Hraunsnefni og þau vinna allt kjötið af því sjálf og selja á vinsælum veitingastað hótelsins. Á Hraunsnefi eru heitir pottar og gisting í boði, bæði á hótelinu og í smáhýsum, og þar er einnig lítil verslun sem selur matarstell sem eru framleidd á staðnum, heimasaumuð barnaföt á frábæru verði og margt fleira fallegt.
Það er mjög líklegt að afi og amma geti gleymt sér við að vappa um Búvélasafnið á Hvanneyri, en það var opnað árið 1987. Landbúnaðarháskólinn á þetta ágæta safn og rekur með styrk frá Rannsóknarstofnun landbúnaðarins. Á safninu má virða fyrir sér þróun tæknivæðingar í landbúnaði á Íslandi í gegnum tíðina og fræðast um þýðingu hennar fyrir þessa ævagömlu atvinnugrein.
Í Borgarnesi fá eldri og yngri borgarar svo sannarlega eitthvað fyrir sinn snúð, en þar er að finna bæði Latabæjarsafn og Samgöngusafnið undir sama þaki. Magnús Scheving íþróttaálfur ánafnaði því bíla- og búnaðarsafn Latabæjar svo að bílar og húsbúnaður karakteranna í Latabæjarþáttunum eru nú til sýnis í húsnæði Fornbílafjelags Borgarfjarðar.
Safnið verður opnað 1. júní og verður opið til ágústloka frá 13-17.
Brugghús Steðja er á jörðinni Steðja í Borgarfirði, en þar framleiða hjónin Svanhildur Valdimarsdóttir og Dagbjartur Arilíusson margar gerðir af hágæðabjór undir nafni Steðja. Á Steðja er gestastofa og þar geta flakkarar sest niður og fengið sér bjórsmakk undir leiðsögn og þegar bragðlaukarnir hafa fundið hvað virkar best er hægt að kaupa sér kippu með uppáhaldstegundunum.
Á Steðja er opið alla daga í sumar frá 13-17 og eftir samkomulagi.
Að ganga upp á gíg er góð skemmtun, sérstaklega þegar allir fjölskyldumeðlimir ættu að geta skellt sér saman. Grábrók hefur nú verið lögð þægilegum göngustíg og þegar komið er á toppinn blasir við einstakt útsýni yfir Borgarfjarðarhérað. Gangan kostar ekki neitt og bílastæði er að finna við ræturnar.
Á leiðinni heim í bæinn er tilvalið að skella sér í sjósund og slaka svo á í náttúrulauginni Guðlaug sem stendur við Langasandinn á Akranesi. Heitum og góðum sturtum hefur verið komið fyrir í fjörunni og þar er einnig ágæt búningsaðstaða. Eftir baðið er algjörlega ómissandi að fá sér fisk og franskar á Mönsvagninum sem stendur fyrir framan Stillholt 16-18, en hann hefur fengið afar góðar viðtökur enda opna þau ekki nema eiga spriklandi ferskan fisk á boðstólum.