Stuttermabolir í barnastærð sem sýna lögreglumanninn Derek Chauvin krjúpa á hálsi George Floyds hafa verið fjarlægðir af vefverslun Amazon.
Bolirnir voru til sölu á vefverslun Amazon í Bandaríkjunum fyrir 15 dollara, eða 2.000 krónur, í gegnum þriðja aðila. Fram kemur í tilkynningu frá Amazon að uppruni bolanna sé til rannsóknar. Óheimilt er samkvæmt reglum Amazon að selja hvers konar varning sem sýnir myndefni frá glæpavettvangi.
Söluaðilinn er með annan varning til sölu á Amazon sem ætlað er að höfða til þeirra sem styðja mótmæli gegn kynþáttafordómum og mismunun lögreglu gagnvart svörtu fólki.
Bolirnir hafa nú verið fjarlægðir af síðunni en sams konar mynd prýðir aðra boli og derhúfur sem finna má undir leitarorðinu „against violent law enforcement“ eða „gegn lögregluofbeldi“. Í tilkynningu Amazon segir að seljendur verði að fylgja fyrirmælum fyrirtækisins og því verði allur söluvarningur af þessu tagi fjarlægður.
Chauvin, sem er 44 ára, er ákærður fyrir manndráp og morð af annarri og þriðju gráðu. Verði hann fundinn sekur gæti hann horft fram á áratugalanga fangelsisvist. Hann var handtekinn nokkrum dögum eftir dauða Floyd og fæst aðeins látinn laus úr varðhaldi gegn tryggingu upp á eina milljón Bandaríkjadala.