„Ég get andað“

„Ég heiti Brooke Williams, frænka George Floyds, og ég get …
„Ég heiti Brooke Williams, frænka George Floyds, og ég get andað. Svo lengi sem ég dreg andann mun ég berjast fyrir réttlæti fyrir Perry,“ sagði Williams þegar hún flutti minningarorð um George Floyd í jarðarför hans í Houston í gær. AFP

„Ég heiti Brooke Williams, frænka George Floyds, og ég get andað. Svo lengi sem ég dreg andann mun ég berjast fyrir réttlæti fyrir Perry,“ sagði Williams við útför frænda hennar

George Floyd Perry Jr. var borinn til grafar í Houston í gær. Floyd var sem alkunnugt er handtekinn af lögreglu í Minneapolis 25. maí og lést þegar lögreglumaðurinn Derek Chauvin kraup á hálsi hans í tæpar níu mínútur. Hinstu orð Floyds voru „I can´t breath“ eða „Ég get ekki andað“ og hafa þau orðið að slagorði mótmælenda sem berjast fyrir réttlátara samfélagi og mótmæla kynþátta­for­dóm­um og mis­mun­un lög­reglu gagn­vart svörtu fólki. 

„Ekki eingöngu morð, heldur hatursglæpur“

Williams lýsti Floyd sem andlega þenkjandi og aðgerðasinna. „Hann hreyfði við fólki með orðum sínum. Lögreglumaðurinn sýndi enga iðrun á meðan sál frænda míns yfirgaf líkama hans,“ sagði hún í minningarorðum sínum og hélt svo áfram og ávarpaði Chauvin beint: 

„Hann sárbað margsinnis um að þú stæðir upp en þú þrýstir bara fastar. Af hverju er kerfið spillt og gallað?“ spurði Williams. Hún sagði löggæslukerfið í Bandaríkjunum hannað svörtum í óhag. „Þessu þarf að breyta. Enga fleiri hatursglæpi, geriði það. Einhver sagði: „Gerum Bandaríkin frábær á ný“ en hvenær hafa Bandaríkin í raun og veru verið frábær?“ spurði Williams jafnframt og var mikið niðri fyrir. 

„Þetta var ekki eingöngu morð, heldur hatursglæpur,“ sagði Williams um dauða Floyd.

Frá jarðarför Floyds í Houston í gær.
Frá jarðarför Floyds í Houston í gær. AFP
mbl.is