Eimskip sakað um að manna skip sín láglaunaáhöfnum

Bergur Þorkelsson, formaður Sjómannafélag Íslands, skar Eimskip um að standa …
Bergur Þorkelsson, formaður Sjómannafélag Íslands, skar Eimskip um að standa ekki við gerða samninga með því að manna skip sín með láglaunaáhöfnum. mbl.is/Arnþór Birkisson

Bergur Þorkelsson, formaður Sjómannafélags Íslands, sakar Eimskip um að í auknum mæli manna skip sín láglaunaáhöfnum og hafi þar með ekki staðið við gerða samninga um mönnun flota síns þar sem kveðið er á um lágmarksfjölda sjómanna á íslenskum kjörum um borð í skipum félagsins.

Segir hann að Sjómannafélagið þurfi að beita Eimskipafélagið auknum þrýstingi ef fyrirtækið hyggst ekki fara eftir ákvæðum í gildandi kjarasamningum.

Þetta kom fram í viðtali við Berg í blaði 200 mílna sem fylgdi Morgunblaðinu um helgina.

Viðræður til ríkissáttasemjara

Spurður um stöðuna í kjaraviðræðum segir Bergur að félagið hafi vísað kjaraviðræðum vegna áhafnar Herjólfs til ríkissáttasemjara og honum sýnist að samningaviðræður vegna hafrannsóknaskipa og varðskipa séu að fara sömu leið.

Um viðræður sjómanna bendir Bergur á að samningsaðilar hafi afhent hvorir öðrum sínar kröfur og segir formaðurinn kröfur sjómanna ekki margar. „Við erum með eina aðalkröfu og teljum hana ekki íþyngjandi fyrir útgerðarmenn. Þær eru að mestu að þeir fari eftir núgildandi kjarasamningum sem kveða á um að útgerðarmenn leiti eftir hæsta verði fyrir aflann. Útgerðarmenn hafa í höndum sér sölu aflans og eiga að tryggja hæsta gangverð fyrir fiskinn.“

Vísar hann meðal annars til ályktunar félagsins þar sem krafist hefur verið að fram fari ítarleg rannsókn á verðmyndun makríls á árunum 2012 til 2018. Var sú krafa gerð í framhaldi af athugun Verðlagsstofu skiptaverðs á vigtar- og ráðstöfunarskýrslum útgerða sem reka landvinnslu og bræðslu. Telur félagið að athugun Verðlagsstofu skiptaverðs hafi leitt í ljós að verðlag sé „miklum mun hærra í Noregi þar sem það miðast við heimsmarkaðverð en á Íslandi. Hráefnisverð makríls á árun-um 2012-2018 var að meðaltali 227% hærra í Noregi en á Íslandi,“ eins og það var orðað í ályktun frá því í janúar. Var hún samin í samstarfi við Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur.

Þrengt að verkfallsrétti sjómanna

Spurður um skýringu þess að ekki hafi gengið að semja á styttri tíma en raun ber vitni, svarar Bergur: „Það sama og venjulega. Menn hafa ekki viljað skoða okkar kröfur. [...] Það er heldur ekkert auðsótt fyrir okkur að sækja okkar kröfur frekar en fyrri daginn. Það er búið að gengisfella verkfallsrétt sjómanna þegar undantekningarlaust eru sett lög á sjómenn þegar þeir fara í verkfall til þess að ná sínum kröfum í gegn.“

Formaðurinn telur eðlilegt í ljósi forsögunnar að tilefni sé til þess að skoða leiðir til þess að vernda betur verkfallsrétt sjómanna í lögum. „Ég held að stjórnvöld verði að koma að með einhverjum hætti, frekar en að setja lög á sjómenn.“

Telur leynd yfir gögnum

„Sjómenn eru á aflahlut og þetta er yfir hundrað ára gamalt samkomulag um kjör fiskimanna að þeir eiga hlut í þeim afla sem þeir veiða. En í bókaflokknum Skútuöldin kemur fram að fyrir aldamótin 1900 var afla skipt í fjöru og þá fékk áhöfn fjórða hvern fisk. Að mínu viti var þetta nokkuð á hreinu þá, en í dag er það því miður þannig að þó að sjómenn séu á hlut af aflaverðmæti þá heldur útgerðin að sér upplýsingum um sölu aflans þannig að það er ekkert gagnsæi um hvernig laun sjómanna eru fundin út,“ fullyrðir Bergur.

„Þar sem er talað um fiskverð til sjómanna sem landa til skyldra aðila þá skuli vera gerður fiskverðssamningur milli útgerðar og áhafnar. Ég get ekki sé að sjómenn séu í nokkurri samningsaðstöðu til þess að gera slíkan samning. Í framkvæmd er ekki gerður neinn samningur um fiskverð, í rauninni er sent blað um borð og sagt að þetta verði verðið sem þeir verða að þiggja fyrir aflann.

Það er kveðið á í kjarasamningum að í slíkum fiskverðssamningi séu upplýsingar um fiskverð til áhafnarinnar, en ég er með undir höndum samning sem sendur hefur verið Verðlagsnefnd skiptaverðs, þar sem sagt er að fiskverð sé samkvæmt gildandi verðtöflu. Það er sem sagt sent blað um borð og mönnum sagt að þetta sé verðið fyrir fiskinn. [...] Eins og þetta er núna fá stéttarfélög ekki aðgang að sölunótum, það er bara trúnaðarmaður sem fær aðgang að þeim. Við hefðum viljað að stéttarfélögin fengju aðgang að þessu, þetta á náttúrulega ekki að vera neitt leyndarmál hvernig fundið er út þetta aflaverðmæti,“ útskýrir formaðurinn. „Ég tel það lítið mál að tengja lágmarksverð við afurðaverð eða markaðsverð ef vilji er fyrir hendi,“ bætir hann við.

Beðið eftir skýrslu

Spurður hvort hann telji verið að hlunnfara sjómenn svarar hann: „Ég segi það ekki, en þetta er ekki uppi á borði. Þeir eru á aflahlut og af hverju er ekki meira gegnsæi í því svo þeir sjái hvernig verðið myndast? [...] Það kom fram í desember í svari Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, að efnt yrði til sérstakrar vinnu í atvinnuvegaráðuneytinu vegna verðmunar á afla í sjávarútvegi. Hann sagðist vænta þess að geta kynnt fljótlega á þessu ári með hvaða hætti ætti að standa að verki og að miðað yrði við óháða rannsókn.“

Bergur kveðst ekki hafa einhverjar sérstakar væntingar til þeirrar skýrslu sem verður til við rannsókn á verðmun, en segir að gott yrði að sjá hana.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: