Greg Glassman, stofnandi og forstjóri CrossFit, hefur sagt af sér sem forstjóri fyrirtækisins í kjölfar þess að ummæli hans um dauða George Floyds á stjórnarfundi CrossFit voru gerð opinber.
Mikil ólga hefur verið innan CrossFit-heimsins undanfarna daga og hafa fjölmargir fordæmt ummæli Glassman, þeirra á meðal tvöföldu heimsmeistararnir Katrín Tanja Davíðsdóttir og Annie Mist Þórisdóttir.
Fyrst um sinn var athygli vakin á því að Glassman hafi gert lítið úr dauða Floyds á Twitter með ummælunum „It's FLOYD-19“ við færslu þar sem rasismi var sagður lýðheilsuvandamál, auk þess sem hann kallaði CrossFit-þjálfara ógeðslega og haldna ranghugmyndum þegar hún gagnrýndi þögn CrossFit í kjölfar dauða Floyds.
Það var svo í gær sem kom í ljós að skömmu áður hafði hann látið þau ummæli falla á stjórnarfundi CrossFit að hann syrgði ekki dauða Floyds, og líklega ekkert starfsfólk hans.
Glassman tilkynnti um afsögn sína í gær, en í kjölfar ummæla hans hefur Reebok, ásamt fleiri stórum styrktaraðilum, hætt samstarfi við CrossFit. Segist Glassman hafa valdið klofningi innan CrossFit-samfélagsins og að hegðun hans megi ekki stefna markmiðum íþróttarinnar í hættu.