Sjónvarpsstöðin Paramount Network hefur tekið úr sýningum raunveruleikaþáttinn Cops vegna mótmæla víðs vegar um Bandaríkin gegn lögregluofbeldi.
Þátturinn var tekinn tímabundið úr sýningum seint í síðasta mánuði. Að sögn talsmanns stöðvarinnar eru engin áform um að hann snúi aftur á dagskrá líkt og fjallað var um á mbl.is í morgun.
Spike TV, forveri Paramount Network, byrjaði að sýna Cops árið 2013 eftir að sjónvarpsstöðin Fox hætti að sýna hann eftir 25 ára göngu. Fyrsti þátturinn í 33. þáttaröðinni átti að fara í loftið 15. júní á Paramount, að sögn New York Times.
Fjölmenn mótmæli hafa átt sér stað bæði í Bandaríkjunum og víðar eftir að að George Floyd, sem var svartur, lést eftir að hafa verið haldið niðri í næstum níu mínútur af hvítum lögregluþjóni.
Mannréttindasamtökin Color of Change hófu herferð árið 2013 þar sem þau hvöttu Fox til að hætta að sýna Cops. Þau sögðu sjónvarpsstöðina hafa „sýnt svarta Bandaríkjamenn og dómskerfið á bjagaðan og ómannúðlegan hátt og byggt í kringum það kerfi til að hagnast á“.
Þegar Fox tók þáttinn úr umferð í mars 2013 fögnuðu samtökin, allt þar til hann hóf göngu sína á nýjan leik í maí sama ár á Spike TV.