Tæknirisinn Amazon hefur ákveðið að setja eins árs bann á notkun lögreglunnar á hugbúnaði fyrirtækisins sem ber kennsl á andlit fólks. Ákvörðun Amazon kemur í kjölfar bakslags vegna tengsla fyrirtækisins við lögregluyfirvöld.
Amazon hefur lýst yfir stuðningi við réttindabaráttu svartra, sem nú er í hámæli eftir dráp lögreglunnar á George Floyd, en fyrirtækið hefur m.a. sent frá sér yfirlýsingu þar sem farið er fram á að lögregla hætti slæmri meðferð á svörtu fólki. Fyrirtækið hefur hins vegar verið harðlega gagnrýnt og sakað um hræsni fyrir að selja hugbúnað sinn lögreglunni.
Ekki liggur fyrir hve mörg lögreglulið nota hugbúnaðinn, eða hvernig hann er notaður, en samkvæmt markaðsefni Amazon er hann í líkamsmyndavélum lögreglu og notaður í rauntíma.
Þegar hugbúnaðurinn var fyrst kynntur var hann harðlega gagnrýndur af mannréttindasamtökum sem höfðu áhyggjur af því að það myndi leiða til enn meiri mismununar gagnvart lituðu fólki. Síðastliðinn miðvikudag tísti þingkonan Alexandria Ocasio-Cortez að lögreglunni ætti hvergi að hleypa nærri þessari tækni.
Shout out to @IBM for halting dev on technology shown to harm society.
— Alexandria Ocasio-Cortez (@AOC) June 10, 2020
Facial recognition is a horrifying, inaccurate tool that fuels racial profiling + mass surveillance. It regularly falsely ID’s Black + Brown people as criminal.
It shouldn’t be anywhere near law enforcement. https://t.co/SOU670yRVc
Rannsóknir á hugbúnaðnum benda til þess að hann sé mun líklegri til þess að bera ranglega kennsl á litað fólk. Í einni slíkri sem ACLU framkvæmdi á Bandaríkjaþingi árið 2018 kom í ljós að hugbúnaðurinn taldi 28 þingmenn hafa verið handtekna fyrir glæp og var mikill meirihluti þeirra þingmenn sem ekki eru hvítir.