Mikil hætta getur skapast af hrúgunum

Malarhrúgurnar eiga að kallast á við náttúru hafsins, segir borgin, …
Malarhrúgurnar eiga að kallast á við náttúru hafsins, segir borgin, en íbúar eru ekki allir sáttir við þessa hólamyndun. Morgunblaðið/Kristinn Magnússon

„Hvort þetta eigi að vera ein­hvers kon­ar lista­verk eða til­rauna­starf­semi með sjálfsprott­inn gróður og ill­gresi, ég hrein­lega veit það ekki. En þetta er vissu­lega tákn­rænt um stefnu meiri­hlut­ans, að verið sé að jarðsetja grænu svæðin í borg­inni,“ seg­ir Eyþór Lax­dal Arn­alds, odd­viti Sjálf­stæðis­flokks­ins, í sam­tali við Morg­un­blaðið og vís­ar í máli sínu til grjót­hrúgna sem staðið hafa sl. vik­ur og mánuði við Eiðsgranda í Reykja­vík, íbú­um þar til ama.

Eyþór seg­ir að til­gang­ur hrúgn­anna sé með öllu óljós og ætl­ar hann því að kalla eft­ir skýr­um svör­um frá borg­inni. „Ég vil fá að vita hver til­gang­ur þessa gjörn­ings sé og ætla að spyrj­ast fyr­ir um það í borg­ar­kerf­inu, að öll­um lík­ind­um á vett­vangi borg­ar­ráðs [í dag].“

Ólaf­ur Kr. Guðmunds­son, vara­borg­ar­full­trúi og sér­fræðing­ur í um­ferðarör­ygg­is­mál­um, seg­ir hrúg­ur sem þess­ar geta skapað mikla hættu, bæði fyr­ir gang­andi og ak­andi veg­far­end­ur á svæðinu.

„Þetta er fjarri því að vera um­ferðar­vænt. Ef ekið er á þetta ger­ist tvennt; annaðhvort tekst bíll­inn á loft, því svona mön virk­ar eins og stökkpall­ur, eða hann grefst inn í hrúg­una og spreng­ir hana í all­ar átt­ir. Þá get­ur grjót auðveld­lega skot­ist út á hjóla- og göngu­stíga með til­heyr­andi slysa­hættu fyr­ir þá sem þar eru,“ seg­ir Ólaf­ur og bend­ir á að mjög al­var­legt um­ferðarslys hafi átt sér stað við Gull­in­brú fyr­ir fá­ein­um árum þegar bif­reið var ekið á sam­bæri­lega mön. Í því slysi tókst öku­tækið á loft og fór stjórn­laust í gegn­um strætó­skýli.

„Það verður að gera ráð fyr­ir því að slys geti átt sér stað. Það er ekki gert í þessu til­viki. Þess­ar grjót­hrúg­ur geta skapað mikla hættu.“

Þvert á vilja íbúa á svæðinu

Morg­un­blaðið óskaði í gær eft­ir frek­ari upp­lýs­ing­um um grjót­hrúg­urn­ar. Í skrif­legu svari frá Reykja­vík­ur­borg kem­ur fram að grjótið teng­ist lagn­ingu hjóla­stígs og var vinnu við hann að mestu lokið síðasta vet­ur. Eru hrúg­urn­ar meðal ann­ars grein­an­leg­ar á teikn­ing­um fyr­ir fram­kvæmd­ina, merkt­ar sem „land­mót­un með malar­yf­ir­borði“. Ekki er því út­lit fyr­ir annað en að grjót­hrúg­urn­ar eigi að vera á þessu svæði áfram, þrátt fyr­ir óánægjuradd­ir íbúa í ná­grenn­inu.

Fram hef­ur komið í fyrri um­fjöll­un að íbú­ar hafa lýst yfir mik­illi óánægju með grjótið, sem þeir segja litla prýði að. Í svari borg­ar­inn­ar kem­ur einnig fram að til standi að breyta minnst einni hrúg­unni lít­il­lega.

„Það á einnig að lag­færa mön­ina sem er hæst og ekki vel formuð, en hún skygg­ir á út­sýni frá Reka­granda,“ seg­ir í svari borg­ar­inn­ar. Þá stend­ur einnig til að koma ein­hverj­um gróðri fyr­ir í hrúg­un­um. Þegar spurt var út í kostnað við fram­kvæmd­ina var svarið: „Kostnaður við þessa land­mót­un við hjóla­stíg­inn fell­ur und­ir þá fram­kvæmd og þar sem verk­inu er ekki end­an­lega lokið ligg­ur hann ekki fyr­ir.“

Morg­un­blaðið/​Krist­inn Magnús­son
mbl.is