„Hvort þetta eigi að vera einhvers konar listaverk eða tilraunastarfsemi með sjálfsprottinn gróður og illgresi, ég hreinlega veit það ekki. En þetta er vissulega táknrænt um stefnu meirihlutans, að verið sé að jarðsetja grænu svæðin í borginni,“ segir Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, í samtali við Morgunblaðið og vísar í máli sínu til grjóthrúgna sem staðið hafa sl. vikur og mánuði við Eiðsgranda í Reykjavík, íbúum þar til ama.
Eyþór segir að tilgangur hrúgnanna sé með öllu óljós og ætlar hann því að kalla eftir skýrum svörum frá borginni. „Ég vil fá að vita hver tilgangur þessa gjörnings sé og ætla að spyrjast fyrir um það í borgarkerfinu, að öllum líkindum á vettvangi borgarráðs [í dag].“
Ólafur Kr. Guðmundsson, varaborgarfulltrúi og sérfræðingur í umferðaröryggismálum, segir hrúgur sem þessar geta skapað mikla hættu, bæði fyrir gangandi og akandi vegfarendur á svæðinu.
„Þetta er fjarri því að vera umferðarvænt. Ef ekið er á þetta gerist tvennt; annaðhvort tekst bíllinn á loft, því svona mön virkar eins og stökkpallur, eða hann grefst inn í hrúguna og sprengir hana í allar áttir. Þá getur grjót auðveldlega skotist út á hjóla- og göngustíga með tilheyrandi slysahættu fyrir þá sem þar eru,“ segir Ólafur og bendir á að mjög alvarlegt umferðarslys hafi átt sér stað við Gullinbrú fyrir fáeinum árum þegar bifreið var ekið á sambærilega mön. Í því slysi tókst ökutækið á loft og fór stjórnlaust í gegnum strætóskýli.
„Það verður að gera ráð fyrir því að slys geti átt sér stað. Það er ekki gert í þessu tilviki. Þessar grjóthrúgur geta skapað mikla hættu.“
Þvert á vilja íbúa á svæðinu
Morgunblaðið óskaði í gær eftir frekari upplýsingum um grjóthrúgurnar. Í skriflegu svari frá Reykjavíkurborg kemur fram að grjótið tengist lagningu hjólastígs og var vinnu við hann að mestu lokið síðasta vetur. Eru hrúgurnar meðal annars greinanlegar á teikningum fyrir framkvæmdina, merktar sem „landmótun með malaryfirborði“. Ekki er því útlit fyrir annað en að grjóthrúgurnar eigi að vera á þessu svæði áfram, þrátt fyrir óánægjuraddir íbúa í nágrenninu.
Fram hefur komið í fyrri umfjöllun að íbúar hafa lýst yfir mikilli óánægju með grjótið, sem þeir segja litla prýði að. Í svari borgarinnar kemur einnig fram að til standi að breyta minnst einni hrúgunni lítillega.
„Það á einnig að lagfæra mönina sem er hæst og ekki vel formuð, en hún skyggir á útsýni frá Rekagranda,“ segir í svari borgarinnar. Þá stendur einnig til að koma einhverjum gróðri fyrir í hrúgunum. Þegar spurt var út í kostnað við framkvæmdina var svarið: „Kostnaður við þessa landmótun við hjólastíginn fellur undir þá framkvæmd og þar sem verkinu er ekki endanlega lokið liggur hann ekki fyrir.“
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Fáðu þér áskrift til að lesa áfram
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu,
rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki
á mbl.is.