Útgáfufyrirtæki Bjarkar breytir um nafn

Björk Guðmundsdóttir.
Björk Guðmundsdóttir. AFP

Útgáfufyrirtæki Bjarkar og Sigur Rósar í Bretlandi, One Little Indian, hefur ákveðið að breyta nafni sínu í One Little Independent.

Stofnandinn Derek Birkett segist hafa tekið ákvörðunina eftir að aðdáandi útskýrði hvernig nafn fyrirtækisins, sem hefur notast við orð sem ekki er lengur notað yfir fólk af frumbyggjaættum í Ameríku, væri móðgandi.

„Maður hefur dregið virkilega mikinn lærdóm af síðustu vikum,“ skrifaði Birkett í yfirlýsingu, að því er BBC greindi frá.

„Eftir að hafa fengið bréf frá aðdáanda Crass, sem opnaði augu mín, þar sem sagt var nákvæmlega hvernig lógóið og nafn fyrirtækisins eru móðgandi, blöskraði mér jafnmikið og honum og ég er þakklátur fyrir að hafa verið komið í skilning um hverju þarf að breyta.“

Hann hélt áfram og sagði að útgáfufyrirtækið hefði verið stofnað seint á áttunda áratugnum þegar vinir hans sóttu innblástur til „hugmyndafræði frumbyggja Bandaríkjanna“.

„Ég var nógu barnalegur á þessum tíma til að halda að nafnið og lógóið sýndi virðingu mína í garð menningarinnar,“ sagði hann. „Núna veit ég að bæði stuðla að rasisma og að þessu hefði átt að breyta fyrir löngu.“

Lady Antebellum heitir núna Lady A.
Lady Antebellum heitir núna Lady A. AFP

Lady Antebellum breytir sínu nafni 

Bandaríska poppsveitin Lady Antebellum hefur einnig breytt nafni sínu, eða í Lady A, vegna tengsla Antebellum við tíma þrælahaldsins í Bandaríkjunum.

Tríóið frá Nashville hefur unnið fimm Grammy-verðlaun og komið sjö plötum á topp tíu listann í Bandaríkjunum, þar af þremur í efsta sætið.

Orðið antebellum er notað sem vísun í tímabilið og byggingarlistina í Suðurríkjum Bandaríkjanna áður en borgarastyrjöldin braust út í landinu.

Á yfirlýsingu á Twitter biðst hljómsveitin afsökunar á þeim sársauka sem hún hafi valdið með nafngiftinni.

mbl.is