Eitt stærsta græna svæði Vesturbæjar undir möl

Þetta er einn af mörgum grjóthaugum sem búið er að …
Þetta er einn af mörgum grjóthaugum sem búið er að sturta á grassvæði við Eiðsgranda í Reykjavík. Borgarfulltrúi Pírata vonast til að sjá strandgróður taka við sér í hrúgunum sem þá kallist betur á við fjöruna. Morgunblaðið/Kristinn Magnússon

„Veðurfar hef­ur verið mikið vanda­mál á þessu svæði. Það er mikið grjót sem geng­ur þarna á land á hverju ári og svo hef­ur gras verið að fjúka. Það voru til að mynda sett­ar niður þarna nýj­ar grasþökur sem fuku nokkr­um dög­um seinna. Vegna þessa þurf­um við að hafa um­hverfið þannig að það taki mið af aðstæðum, verði meira tengt sjón­um og fjör­unni,“ seg­ir Sig­ur­borg Ósk Har­alds­dótt­ir, borg­ar­full­trúi Pírata og formaður skipu­lags- og sam­gönguráðs, í sam­tali við Morg­un­blaðið.

Vís­ar hún í máli sínu til stórra grjót­hrúgna sem búið er að sturta á grasblett við Eiðsgranda í Reykja­vík, mörg­um íbú­um þar til ama. Greint hef­ur verið frá þeirri at­hygli sem hrúg­urn­ar hafa fengið und­an­farið, óánægju íbúa og furðu borg­ar­full­trúa á fram­kvæmd­inni.

Boðar út­sýn­ispall og þver­an­ir

Aðspurð seg­ir Sig­ur­borg Ósk borg­ina vera að búa til eins kon­ar „strand­g­arð“ við Eiðsgranda og muni grjót­hrúg­urn­ar gegna lyk­il­hlut­verki þegar komi að því að rækta upp strand­plönt­ur á borð við melgresi, sæhvönn, fjörukál, blálilju og bald­urs­brá. Þá muni hrúg­urn­ar skapa svæði sem krefj­ist minni um­hirðu og sem þurfi ekki grasslátt.

Fleira stend­ur þó til á svæðinu. „Deili­skipu­lag ger­ir einnig ráð fyr­ir út­sýn­ispalli sem stend­ur út fyr­ir sjóvarn­argarðinn,“ seg­ir Sig­ur­borg Ósk og bend­ir á að einnig verði komið fyr­ir öðrum stiga við sjóvarn­argarðinn til að bæta aðgengi fólks að sand­fjöru sem finna má vest­an við skolp­dælu­stöð borg­ar­inn­ar.

Til að huga að auknu ör­yggi þeirra sem þvera vilja Eiðsgranda seg­ir Sig­ur­borg Ósk stefnt að alls sex ljós­a­stýrðum gönguþver­un­um.

Í viðtali við Morg­un­blaðið í gær sagðist sér­fræðing­ur í um­ferðarör­ygg­is­mál­um hafa áhyggj­ur af því ef bif­reið yrði óvart ekið á eina af grjót­hrúg­un­um. Sagði hann slysa­hættu stafa af þeim, bæði fyr­ir öku­menn og gang­andi, og nefndi dæmi um al­var­legt slys við Gull­in­brú þegar bif­reið var ekið á sam­bæri­lega mön. Spurð út í þess­ar áhyggj­ur svar­ar Sig­ur­borg Ósk: „Þá lækk­um við bara hraðann. Við get­um ekki látið um­hverfi taka mið af verstu mögu­legu hegðun öku­manns.“

Grænt svæði und­ir grjót­hrúg­ur

Um svæðið seg­ir í deili­skipu­lagi: „Strand­lengj­an við Eiðsgranda-Ánanaust er eitt stærsta græna svæðið í Vest­ur­bæ Reykja­vík­ur.“

Vig­dís Hauks­dótt­ir, borg­ar­full­trúi Miðflokks­ins, seg­ir ljóst að fram­kvæmd­in sé liður í að fækka græn­um svæðum í Reykja­vík.

„Hvar er græna Reykja­vík sem þetta fólk þyk­ist standa fyr­ir? Fyr­ir þeim er græna Reykja­vík steypa, möl og grjót. Verður það sem sagt stefn­an núna þegar borg­in þarf að spara viðhald og slátt að sturta niður mal­ar­bingj­um?“ seg­ir Vig­dís.

Þá bend­ir hún á að Eiðsgrandi sé skil­greind­ur sem þjóðveg­ur í byggð og Seltirn­ing­um mik­il­væg­ur. Nú sé þegar búið að þrengja að um­ferð um Geirs­götu og stefnt á frek­ari gönguþver­an­ir á Eiðsgranda og hugs­an­lega lækk­un á há­marks­hraða.

„Hvernig borg­in get­ur tekið all­an rétt af Seltirn­ing­um og þrengt í sí­fellu að ferðavenj­um þeirra, ég bara skil það ekki,“ seg­ir Vig­dís.

Eyþór Lax­dal Arn­alds, odd­viti Sjálf­stæðis­flokks­ins, tek­ur í svipaðan streng. Um sé að ræða eina stóra hraðahindr­un á Eiðsgranda. „Kannski er ekki langt í tolla­hliðið sem fyrr­ver­andi borg­ar­stjóri boðaði á sín­um tíma,“ seg­ir hann.

Morg­un­blaðið/​Krist­inn Magnús­son
mbl.is