„Veðurfar hefur verið mikið vandamál á þessu svæði. Það er mikið grjót sem gengur þarna á land á hverju ári og svo hefur gras verið að fjúka. Það voru til að mynda settar niður þarna nýjar grasþökur sem fuku nokkrum dögum seinna. Vegna þessa þurfum við að hafa umhverfið þannig að það taki mið af aðstæðum, verði meira tengt sjónum og fjörunni,“ segir Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi Pírata og formaður skipulags- og samgönguráðs, í samtali við Morgunblaðið.
Vísar hún í máli sínu til stórra grjóthrúgna sem búið er að sturta á grasblett við Eiðsgranda í Reykjavík, mörgum íbúum þar til ama. Greint hefur verið frá þeirri athygli sem hrúgurnar hafa fengið undanfarið, óánægju íbúa og furðu borgarfulltrúa á framkvæmdinni.
Boðar útsýnispall og þveranir
Aðspurð segir Sigurborg Ósk borgina vera að búa til eins konar „strandgarð“ við Eiðsgranda og muni grjóthrúgurnar gegna lykilhlutverki þegar komi að því að rækta upp strandplöntur á borð við melgresi, sæhvönn, fjörukál, blálilju og baldursbrá. Þá muni hrúgurnar skapa svæði sem krefjist minni umhirðu og sem þurfi ekki grasslátt.
Fleira stendur þó til á svæðinu. „Deiliskipulag gerir einnig ráð fyrir útsýnispalli sem stendur út fyrir sjóvarnargarðinn,“ segir Sigurborg Ósk og bendir á að einnig verði komið fyrir öðrum stiga við sjóvarnargarðinn til að bæta aðgengi fólks að sandfjöru sem finna má vestan við skolpdælustöð borgarinnar.
Til að huga að auknu öryggi þeirra sem þvera vilja Eiðsgranda segir Sigurborg Ósk stefnt að alls sex ljósastýrðum gönguþverunum.
Í viðtali við Morgunblaðið í gær sagðist sérfræðingur í umferðaröryggismálum hafa áhyggjur af því ef bifreið yrði óvart ekið á eina af grjóthrúgunum. Sagði hann slysahættu stafa af þeim, bæði fyrir ökumenn og gangandi, og nefndi dæmi um alvarlegt slys við Gullinbrú þegar bifreið var ekið á sambærilega mön. Spurð út í þessar áhyggjur svarar Sigurborg Ósk: „Þá lækkum við bara hraðann. Við getum ekki látið umhverfi taka mið af verstu mögulegu hegðun ökumanns.“
Grænt svæði undir grjóthrúgur
Um svæðið segir í deiliskipulagi: „Strandlengjan við Eiðsgranda-Ánanaust er eitt stærsta græna svæðið í Vesturbæ Reykjavíkur.“
Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, segir ljóst að framkvæmdin sé liður í að fækka grænum svæðum í Reykjavík.
„Hvar er græna Reykjavík sem þetta fólk þykist standa fyrir? Fyrir þeim er græna Reykjavík steypa, möl og grjót. Verður það sem sagt stefnan núna þegar borgin þarf að spara viðhald og slátt að sturta niður malarbingjum?“ segir Vigdís.
Þá bendir hún á að Eiðsgrandi sé skilgreindur sem þjóðvegur í byggð og Seltirningum mikilvægur. Nú sé þegar búið að þrengja að umferð um Geirsgötu og stefnt á frekari gönguþveranir á Eiðsgranda og hugsanlega lækkun á hámarkshraða.
„Hvernig borgin getur tekið allan rétt af Seltirningum og þrengt í sífellu að ferðavenjum þeirra, ég bara skil það ekki,“ segir Vigdís.
Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, tekur í svipaðan streng. Um sé að ræða eina stóra hraðahindrun á Eiðsgranda. „Kannski er ekki langt í tollahliðið sem fyrrverandi borgarstjóri boðaði á sínum tíma,“ segir hann.
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Fáðu þér áskrift til að lesa áfram
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu,
rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki
á mbl.is.