Nýr sjóður sér um endurgreiðslurnar

Ferðamálaráðherra segir unnið að því að stofna nýjan sjóð til …
Ferðamálaráðherra segir unnið að því að stofna nýjan sjóð til að endurgreiða neytendum vegna niðurfelldra ferða hjá ferðaskrifstofum. mbl.is

Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir ferðamálaráðherra seg­ir að nú sé unnið að því að koma á fót ferðaábyrgðasjóði á veg­um stjórn­valda. Hann mun hafa það hlut­verk að greiða neyt­end­um sem eiga inni hjá ferðaskrif­stof­um vegna niður­felldra ferða á tíma­bil­inu 12. mars til 30. júní. Þeir hafa marg­ir ekki fengið end­ur­greitt í sam­ræmi við sinn lög­bundna rétt.

Í hvert sinn sem greitt verður úr þess­um sjóði mynd­ast skuld viðkom­andi ferðaskrif­stofu við sjóðinn. Hún yrði greidd á allt að átta ára tíma­bili að sögn Þór­dís­ar en vaxta­kjör­in á skuld­inni væru það hag­stæð að í því fæl­ist í raun ákveðin rík­is­ábyrgð. Niður­greiðslan væri ekki á markaðskjör­um.

„Ef ferðaskrif­stof­an fer síðan í þrot á sjóður­inn for­gang í trygg­ing­ar­féð í sam­ræmi við það sem greitt hef­ur verið út,“ seg­ir Þór­dís við mbl.is. Hún seg­ir að ekki sé hægt að tryggja al­farið að allt það fé sem greitt verði út úr ferðaábyrgðasjóði fá­ist end­ur­heimt en að ráðstaf­an­ir verði gerðar til þess að tryggja að sem mest skili sér.

Ekki hrein rík­is­ábyrgð

Fyrri áform ráðherra um að gera ferðaskrif­stof­um kleift að end­ur­greiða með inn­eign­arnót­um gengu ekki eft­ir og mættu póli­tískri and­stöðu. Þessi nýja leið seg­ir hún að skapi meiri sátt og hún seg­ist finna fyr­ir þver­póli­tísk­um stuðningi við hana. Ljóst er að leysa þarf þann vanda sem er kom­inn upp, að ferðaskrif­stof­ur geti ein­fald­lega ekki end­ur­greitt viðskipta­vin­um þar sem til dæm­is hót­el og flug­fé­lög eru ekki að end­ur­greiða þeim.

„Við erum að leita leiða til að koma súr­efni inn í þetta. Stund­um eru þetta fyr­ir­tæki með allt sitt í lagi, eng­in van­skil og ekki neitt. Þau geta ekki end­ur­greitt öll­um á einu bretti og kom­ast ekki í trygg­ing­arn­ar nema fara í þrot og þessi vandi fer ekki frá okk­ur,“ seg­ir Þór­dís.

„Nú er ekki verið að ganga á rétt neyt­enda með nein­um hætti, ríkið tek­ur þetta á sig en kem­ur því þó þannig fyr­ir að við ger­um ráð fyr­ir að skuld­in sem mynd­ist verði greidd til baka og svo ger­um við ráðstaf­an­ir jafn­vel þó að fyr­ir­tækið fari í þrot. Það má því segja að þetta sé í fjöl­skyldu með öðrum úrræðum til fyr­ir­tækja. Þetta er ekki hrein rík­is­ábyrgð. Við erum ekki að sópa upp þess­ar kröf­ur og bara að greiða þær,“ seg­ir Þór­dís.

mbl.is