Ekki sjálfgefið að skipin yrðu á sjó

Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasamband Íslands, segir launakerfi sjómanna í hag …
Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasamband Íslands, segir launakerfi sjómanna í hag sjómanna og útgerðarmanna þar sem til verður hvati til að fara vel með afurðina og tryggja hæsta verð. Eggert Jóhannesson

„Maður verður að hrósa sjó­mönn­um fyr­ir það hvernig þeir tækluðu þetta Covid-dæmi. Það var ekk­ert sjálf­gefið að skip­in gætu verið á sjó ef það kæmu upp stór­ar sýk­ing­ar hér og þar,“ seg­ir Val­mund­ur Val­munds­son, formaður Sjó­manna­sam­bands Íslands.

„En menn fóru að fyr­ir­mæl­um og meira en það, því sumstaðar þar sem menn voru í stutt­um túr­um og stoppað stutt milli veiðiferða, þá fóru menn ekk­ert í land og voru bara um borð á meðan var landað. Voru kannski 15 til 20 daga um borð. Þetta var bara til þess að menn myndu ekki bera sýk­ing­ar á milli og koma í veg fyr­ir sýk­ing­ar um borð í skip­un­um. Menn bara héldu vinn­unni og það skipt­ir máli að hægt var að reka flot­ann með ágæt­is ár­angri. Það er meira að segja al­veg ótrú­legt að ekki hafi komið upp fleiri sýk­ing­ar um borð í skip­um,“ út­skýr­ir hann.

Val­mund­ur seg­ir enga hafa veigrað sér við að taka á sig aukn­ar byrðar með því að vera leng­ur frá fjöl­skyldu og vin­um. „Íslensk­ir sjó­menn stóðu sína plikt í þessu og vel það.“

En það eru ekki bara smit­varn­ir á vinnustaðnum sem hafa haft áhrif. Vegna aðgerða er­lendra stjórn­valda til þess að hefta kór­ónu­veirufar­ald­ur­inn hafa marg­ir markaðir fyr­ir ýms­ar ís­lensk­ar sjáv­ar­af­urðir lokast og hef­ur það sett þrýst­ing á verð á mörkuðum. Val­mund­ur seg­ir fé­lags­menn hafa haft áhyggj­ur af ástand­inu enda hef­ur þetta haft áhrif á tæki­færi þeirra til tekju­öfl­un­ar.

Af­koma bund­in gjald­miðlin­um

„Fisk­verð hef­ur lækkað mjög mikið á þess­um tíma, lík­lega um 20% á fisk­mörkuðunum. Við erum með tvö­falt kerfi, þeir sem kaupa fisk af sjálf­um sér og eiga vinnslu, þeir borga 80% af markaðsverðinu og tek­ist hef­ur að halda því vegna þess að það eru teng­ing­ar við afurðaverðið líka. Það hef­ur ekki fallið að ráði. Von­andi erum við að sjá botn­inn í verðlækk­un­um á mörkuðunum. Ef þetta hækk­ar í sum­ar verður þetta viðun­andi. En auðvitað hafa menn áhyggj­ur,“ út­skýr­ir hann.

Spurður hvort hann telji starf sjó­manns­ins nægi­lega metið í ís­lensku sam­fé­lagi, seg­ir Val­mund­ur svo ekki vera. „Nei. Því hef­ur hrakað svo­lítið eft­ir að ferðaþjón­ust­an fór af stað eft­ir hrun. Þá hef­ur dregið úr vægi sjáv­ar­út­vegs­ins, en nú kem­ur hann inn af fullu eins og eft­ir efna­hags­hrunið 2008.

Þegar gengi krón­unn­ar var lágt 2011 til 2014 eða 2015 voru tekj­ur út­gerðar­inn­ar og sjó­manna nán­ast æv­in­týra­leg­ar. Sögu­lega er þetta lík­lega besta tíma­bil bæði út­gerðar og sjó­manna. En svo þegar krón­an fór að styrkj­ast aft­ur, þá var það meðal ann­ars ástæða fyr­ir verk­fall­inu 2017. Þá lækkuðu laun sjó­manna um 30 til 40% á nán­ast einu ári. Þannig að það var ekk­ert skrýtið þó að menn væru til­bún­ir í átök.“

Sett á ís vegna veirunn­ar

Val­mund­ur seg­ir lítið um það hvort hann bú­ist við átök­um á ný vegna yf­ir­stand­andi kjaraviðræðna sjó­manna, en bend­ir á að viðræðurn­ar voru sett­ar á ís vegna kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins. „Þá vor­um við ný­bún­ir að und­ir­rita viðræðuáætlun með Sam­tök­um fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi og leggja fram okk­ar kröf­ur og þeir sín­ar. Und­ir­bún­ings­vinn­an var búin að standa yfir varðandi bók­an­ir frá síðasta samn­ingi, en kjaraviðræðurn­ar fóru aldrei af stað og málið er bara statt þar.

Þess­ar bók­an­ir vörðuðu ekki efn­is­atriði, en ým­is­legt sem þyrfti að klára til þess að nýr samn­ing­ur yrði gerður. Til dæm­is voru skip áður fyrr mæld í brúttó­rúm­lest­um, það er ekki gert leng­ur. Þessi brúttó­rúm­lesta-mæl­ing, hún ákv­arðaði það hvar menn lentu í sam­bandi við skipta­pró­sentu sem var samið um. Fyrst skip eru ekki leng­ur mæld svona verðum við að breyta því og ákváðum að fara í skrán­ing­ar­lengd í metr­um. Þá þarf að út­búa all­ar skrán­ing­ar­t­öfl­ur upp á nýtt og sú vinna er kom­in mjög langt, eig­in­lega búin.“

Þá hafi farið fram veru­leg vinna við að sam­ræma samn­inga þannig að aðild­ar­fé­lög Sjó­manna­sam­bands­ins séu ekki með mis­mun­andi samn­inga, að sögn for­manns­ins. „Þá get­um við komið fram sem ein heild með einn samn­ing.“

Deila áhættu með út­gerðinni

„Svo vor­um við komn­ir aðeins áleiðis í vinnu við að byrja að skipta úr heild­ar­verðmæt­um í staðinn fyr­ir að ein­hver kostnaðar­hluti yrði tek­inn af, þá mynd­um við gera upp 100% afla­verðmæti,“ seg­ir Val­mund­ur og út­skýr­ir að þetta feli í sér að svo­kölluð kostnaðar­hlut­deild falli út en skipta­pró­sent­ur í samn­ingn­um sjálf­um lækki á móti. „Launa­hlut­fall í út­gerð á Íslandi er frá 33% upp í rúm 40% eft­ir veiðigrein­um. Þannig að launa­hlut­fall í út­gerð á Íslandi, miðað við aðrar at­vinnu­grein­ar, er hátt. En á móti kem­ur að við erum að deila hlut með út­gerðinni, við erum að deila áhættu með út­gerðinni. Við erum ekki á tíma­kaupi, við erum á hlut. Einnig er sjó­mennska hættu­legt og krefj­andi starf. Og eft­ir því sem geng­ur bet­ur hjá út­gerðinni, geng­ur bet­ur hjá sjó­mönn­um og öf­ugt.

Kaup­trygg­ing­in okk­ar er ekki mjög há. Hún er ekki nema 320 þúsund, lág­marks­kaupið verður aldrei minna en það. En við byggj­um á því að menn geta gert verðmæti úr því sem kem­ur í land sem verður meira en kaup­trygg­ing­in.“

Spurður hvort launa­kerfi sjó­manna sé úr sér gengið, seg­ir hann mik­il­væg­an inn­byggðan hvata í gild­andi kerfi sem báðir aðilar hagn­ast á. „Það hef­ur verið talað um það að fara á föst laun, en þegar til kem­ur eru menn ekki til­bún­ar að skipta. Hvorki út­gerðar­menn né sjó­menn. Útgerðar- manna meg­in held ég að hugs­un­in sé sú að við sjó­menn höf­um hag af því að við göng­um sem best frá fisk­in­um og göng­um vel um afl­ann svo við fáum sem mest fyr­ir hann. Það er gul­rót­in og það gæti orðið til þess að það yrði ekki eins vel gengið um afl­ann ef menn ættu ekki hlut í hon­um. Okk­ar skýr­ing er sú að við sækj­umst eft­ir því að vera í góðum pláss­um sem fiska vel og borga vel. Eft­ir því sem fisk­ast meira og fæst hærra verð fá menn hærri laun.“

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: