Kristín Sif Björgvinsdóttir útvarpsstjarna á K100 og hnefaleikakona gisti í búbblu hjá Bubbles in Iceland á dögunum. Hún segir að þetta hafi verið eins og að sofa úti undir berum himni í Ölvisholti þar sem plasttjaldið er staðsett.
„Það var virkilega notalegt að gista í búbblu eða eiginlega eins og að sofa undir berum himni nema það var hlýtt og þurrt þó að vindur og rigning blésu á búbbluna. Ég hélt að birtustig þessa árstíma myndi halda fyrir mér vöku en það gerði það ekki. Það var augngríma í boði en ég notaði hana ekki. Það var eiginlega bara betra að það var smá rigning og algjör slökun og hugleiðsla,“ segir Kristín Sif.
Kristín Sif segir að þessi búbbla sé í raun plasttjald sem stendur inni á milli trjáa.
„Það má kalla þetta svona „Glam-camping“ eða „glamping“ því þetta er plasttjald sem er sett inn á milli trjáa svo maður er algjörlega út af fyrir sig og við vorum með geggjað útsýni yfir sveitina úr okkar búbblu. Hún er upphituð og notaleg með teppi á gólfum og tvíbreiðu rúmi með tveimur einstaklingssængum og svo er tvíbreið sæng yfir alltsaman. Alveg mega kósí. Okkar beið líka bubblí í formi freyðites, rós og rómantík á rúminu,“ segir hún.
Hvað er hægt að gera í þessari búbblu annað en fara í sleik?
„Að fara í svona búbblu með einhverjum sem maður elskar og vill eiga góða stund með er algjör snilld – til að fara í sleik og meira,“ segir hún og hlær og bætir við: „En líka að eiga stund í algjörri núvitund og eiga djúpt og innilegt spjall í umhverfi sem er svo ævintýralegt að það er eins og að sitja saman úti í skógi og spjalla. Maður kemst í snertingu við náttúruna og þetta jarðtengir mann.
Við nutum þess að liggja og spjalla saman og horfa á skýin fljóta framhjá, spjölluðum um heima og geima og svo er dásamlegt að skella sér í göngutúr eða á rúntinn, en Friðheimar, The Secret Lagoon og margt fleira er þarna rétt hjá. Þetta svæði býður upp á alls konar skemmtilegt,“ segir Kristín Sif, en með í för var kærasti hennar, Aaron Kaufman.
Hvernig svafstu?
„Ég svaf svo vel og það var dásamlegt að vakna við litla regndropa, fuglasöng og gnauðið í vindinum á tjaldinu okkar.“
Myndir þú gera þetta afur?
„Ég ætla að gera þetta aftur en mig langar að fara aftur þegar það er orðið dimmt og stjörnubjart og ég stefni á það.
Þetta var algjörlega frábært.“