„Höfum þurft að hafa fyrir hlutunum“

Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri í Hveragerði.
Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri í Hveragerði.

Þrátt fyrir erfiðan vetur er blómabærinn Hveragerði óðum að rétta úr kútnum. Kórónuveirufaraldurinn hægði á hjólum atvinnulífsins og tveir bæjarbúar létust af völdum veirunnar en núna er sumarið greinilega komið. „Veturinn var svo sannarlega þungur, veðrið var leiðinlegt og veiran skildi eftir sig skarð í bæjarfélaginu. En Hvergerðingar eru óðum að ná áttum á ný, og þeir sem lengra muna aftur hafa á orði að bragurinn á bæjarlífinu í dag minni á þann tíma þegar vinsældir Edens og Blómaskála Michelsen voru í hámarki. Á góðviðrisdögum í vor hefur bærinn verið smekkfullur af fólki sem streymir hingað af höfuðborgarsvæðinu og úr nágrannabyggðum til að njóta útivistar, veitinga og annars þess sem Hveragerði hefur upp á að bjóða,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri.

„Björgum okkur sjálf“

Atvinnulífið í þessum litla bæ er fjölbreytt, sem hjálpar á tímum sem þessum. Heilsustofnun NLFÍ og Dvalarheimilið Ás eru stærstu vinnuveitendur bæjarins, að Hveragerðisbæ undanskildum, og næst á eftir kemur ísgerðin Kjörís þar sem starfa allt að 70 manns yfir sumartímann. Ýmis rekstur og fjölbreyttur hefur orðið til í kringum ferðaþjónustu og undanfarin ár hafa einkennst af auknu úrvali gistimöguleika og fjölgun veitingastaða en fyrir er bærinn vitaskuld löngu orðinn frægur fyrir þá garðyrkju sem fer þar fram. „Hér er þorri sumarblóma landsins framleiddur og fjölmargir hefja vorverkin í garðinum í Hveragerði,“ segir bæjarstjórinn.

„Það hefur verið eitt af einkennum Hveragerðis í gegnum tíðina að við höfum þurft að hafa fyrir hlutunum. Hér er vitaskuld engin útgerð, og engin áberandi stórfyrirtæki. Atvinnulífið hefur þess í stað byggst upp í krafti hugmyndaauðgi einstaklinga sem hafa lagt allt í sölurnar til að gera góða hluti. Við björgum okkur einfaldlega sjálf og sést það greinilega þegar litið er yfir atvinnusögu bæjarins þar sem ótal fyrirtæki af ýmsum gerðum hafa verið rekin í skemmri og lengri tíma, og fengist við allt frá húsgagna- og tjaldaframleiðslu yfir í þorskhausa- og þangþurrkun. Svo má ekki gleyma Tívolíinu sem lifir í minningu landsmanna, svo fátt eitt sé talið.“

mbl/Arnþór Birkisson

Ný hverfi í mótun

Undanfarin ár hefur íbúum fjölgað jafnt og þétt og segir Aldís að fjölgunin sé langt yfir landsmeðaltali en samt er mikil áhersla lögð á það í bæjarstjórn að uppbyggingin sé skynsamleg og um leið tryggt að bæjarfélagið geti tekið vel á móti öllum nýjum íbúum. „Þjónustan þarf að halda í við fjölgun íbúa svo að tryggt sé að nóg sé af leikskólaplássum, að börnin fái góða grunnskólamenntun og að hér séu góð íþróttamannvirki. Bæjarfélagið hefur stýrt uppbyggingarhraðanum enda er svo til eingöngu byggt á landi í eigu bæjarfélagsins. Með því móti reynum við að koma í veg fyrir þá vaxtarverki sem plagað hafa sum bæjarfélög á hinum svokölluðu vaxtarsvæðum. Ekki vantar samt eftirspurnina enda er Hveragerði eftirsóttur staður til búsetu og allt það húsnæði sem fer í sölu selst á augabragði.“

Hveragerðisbær hefur nýverið fest kaup á svæði sem kallast Kambaland og er þar nú hafin uppbygging á fjölbreyttum íbúðum. Þegar hverfið er fullbyggt er gert ráð fyrir að þar muni búa um það bil þúsund manns. Þá er uppbygging að hefjast á nýju atvinnusvæði sunnan við hringveginn, og til lengri framtíðar er fyrirliggjandi deiliskipulag fyrir svæðið austan við bæinn þar sem gæti rúmast tvö þúsund manna byggð. „Hveragerði kúrir í faðmi fjalla í góðu skjóli og snýr á móti suðri, og þessi landsvæði sem munu fara í sölu og uppbyggingu á komandi árum eru af því tagi sem tæplega er í boði annars staðar.“

Aldís bindur miklar vonir við atvinnusvæðið sunnan við byggðina og segir ýmsa kosti fylgja því að stunda rekstur á þessum slóðum. Hún bendir á að fyrirtækin á svæðinu búi t.d. mörg að stórum hópi viðskiptavina á öllu Suðurlandi og þá sé aðeins um 20 mínútna akstur í öfluga vöruflutningahöfn. „Við sjáum það líka hjá framleiðslufyrirtækjum í bænum að þau njóta góðs af ágætu framboði á vinnuafli og minni starfsmannaveltu en hjá sambærilegum fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu.“

Hringvegurinn færður

Uppbyggingin í og við Hveragerði hvílir m.a. á því að lokið verði við að færa hringveginn sunnar, þar sem endanlegt vegstæði hans á að vera. „Það verður þá teygt úr neðstu beygjunni í Kömbunum og vegurinn látinn liggja töluvert sunnar. Í framhaldinu getum við hafist handa við að byggja bæinn í kringum veginn á nýjum stað,“ segir Aldís og minnir jafnframt á mikilvægi þeirra samgöngubóta sem nú eru hafnar á Suðurlandsveginum. Enda er umferðarþunginn austur fyrir fjall sífellt að aukast í takt við auknar vinsældir þessa svæðis til búsetu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: