Óhætt er að kalla Listasafn Árnesinga miðpunktinn í menningarlífi Hveragerðis. Þar er unnið metnaðarfullt starf og fjölbreytt dagskrá í boði árið um kring. Kristín Scheving tók nýlega við sem safnstjóri og hlakkar til að opna safnið á ný eftir kórónuveirulokun. Þrettánda júní fer allt af stað í húsinu með sýningunni Tíðarandi.
„Þar sýnum við valin verk úr einkasafni Skúla Gunnlaugssonar hjartalæknis en hann er einn af öflugustu listaverkasöfnurum landsins og með mikinn áhuga á myndlist almennt. Vigdís Rún Jónsdóttir stýrir sýningunni og hefur hún valið um 50-60 verk sem öll voru sköpuð á undanförnum tíu árum af mörgum fremstu listamönnum landsins,“ útskýrir Kristín en meðal þeirra sem eiga verk á sýningunni eru Ragnar Kjartansson, Elín Hansdóttir, Gabríela Friðriksdóttir, Egill Sæbjörnsson og Ásdís Sif Gunnarsdóttir svo nokkrir séu nefndir.
Það á mjög vel við, núna þegar landið og öll heimsbyggðin er að koma undan kórónuveirufaraldri, að líta yfir síðasta áratug og kannski ná þannig betur áttum áður en haldið er inn í framtíðina. „Listamennirnir eru jú alltaf að spegla okkur og samtímann, og sést það á verkunum hve ótrúlega margt hefur gerst á síðastliðnum tíu árum,“ segir Kristín.
Listasafn Árnesinga á sér merkilega sögu en rekja má upphaf safnsins til rausnarlegrar gjafar Bjarnveigar Bjarnadóttur og tveggja sona hennar, Bjarna Markúsar og Lofts Jóhannessona, sem á tímabilinu 1963-1986 færðu Árnesingum liðlega sjötíu listaverk eftir helstu listamenn þess tíma, það elsta frá árinu 1900 en flest frá miðbiki síðustu aldar. „Annars hefur það einkennt starfsemina í gegnum árin að hér hafa verið haldnar vandaðar sýningar svo að mikill áhugi er hjá íslensku listafólki á að sýna hér. Auk þess hefur safnið tekið þátt í samstarfsverkefnum með innlendum og erlendum listasöfnum,“ segir Kristín.
Hefð hefur skapast fyrir því að halda vinnustofur samhliða sýningum og tengja viðburði í safninu við menntastofnanir á svæðinu, s.s. með samstarfi við grunnskóla í Árnessýslu og með listasmiðjum um helgar þar sem bæði börn og fullorðnir geta fræðst og jafnvel veitt listrænum hæfileikum sínum útrás. Safnið er opið frá kl. 12 til 18 alla daga og ókeypis inn. „Ég þekki það hjá sjálfri mér hvað það er gaman að heimsækja Hveragerði, sérstaklega ef börn eru með í för, kíkja á starfið í listasafninu, sjóða egg í hver, njóta þess fallega umhverfis sem finna má í bænum og kannski fá pizzu á einum besta pizzastað landsins.“