Gengur berfættur í sandinum til Þorlákshafnar

Jónas Sigurðsson er alinn upp í Þorlákshöfn.
Jónas Sigurðsson er alinn upp í Þorlákshöfn.

Tónlistarmaðurinn Jónas Sigurðsson, kenndur við Ritvélar framtíðarinnar, er Sunnlendingur í húð og hár. Alla sína barnæsku átti hann heima á Þorlákshöfn og á sumrin var hann í sveit hjá frændfólki sínu á Skýbakka undir Eyjafjöllum en foreldrar hans voru frá Landeyjum og undan Eyjafjöllum. 

Foreldrar mínir fluttu fyrst á Þorlákshöfn frá Landeyjum en á þeim árum var bærinn að byggjast upp með útgerðinni sem þá var í blóma. Fullt af ungu fólki flutti úr sveitunum í þorpið með börnin sín. Þorlákshöfn var samt í minningunni aðallega hraun og sandur þegar ég var að alast upp, en í dag er þetta mikið breytt og margt sem er búið að byggja upp,“ segir Jónas sem greinilega er svolítið hlýtt til sinnar gömlu heimabyggðar.
Ströndin í kringum Þorlákshöfn er heillandi.
Ströndin í kringum Þorlákshöfn er heillandi.

„Svo margt sem maður keyrir bara framhjá“

„Radíusinn minn var í raun þetta svæði; Þorlákshöfn, Stokkseyri, Eyrarbakki, Hveragerði og Selfoss. Partí í Hveragerði voru til dæmis alltaf mikil ævintýri þegar ég var unglingur og þangað finnst mér enn gaman að koma,“ segir Jónas og nefnir þar Reykjadalinn sem dæmi.

„Sundlaugin gamla á Reykjaskarði er mjög skemmtileg og að ganga inn í Reykjadal er alltaf æðislegt. Núna nýverið, svona eftir að túrisminn hefur dregist saman, þá hefur mér líka þótt mjög skemmtilegt að leigja AirBnB-húsnæði yfir helgi til að vinna að tónlistinni. Til dæmis hef ég leigt smáhýsi þarna við Núpa í Ölfusi. Ég hafði oft ekið þar framhjá og aldrei dottið í hug að leigja þarna fyrr en nýlega. Manni fannst þetta einhvern veginn ekkert voðalega spennandi en þegar inn í þessi hús er komið tekur allt annað við. Íslendingar eru svo mikið bílafólk og það er svo margt sem maður keyrir alltaf bara framhjá. Stundum er eins og það þurfi voða mikið til að við stoppum til að gera eitthvað annað en að fara inn í sjoppu en auðvitað á maður að gera það því hér er endalaust hægt að sjá og skoða.“

Mikil sköpun í matargerð

Eins og áður segir var Sunnlendingurinn Jónas ekki bara í Þorlákshöfn heldur var hann í sveit í Landeyjum á sumrin.

„Núna er líka hægt hægt að leigja AirBnB-gistingu þar. Mér finnst fátt betra en að vakna á morgnana í sveitinni í Landeyjum og ganga út á verönd þar sem endalaust útsýni blasir við til allra átta. Þetta er eins og að vera staddur „in the middle of nowhere“. Einstök tilfinning. Suðurlandið er svo stórt og náttúran fjölbreytt. Með ferðamannastraumnum hefur líka svo margt breyst og hér hefur svo mikil sköpun átt sér stað á svo mörgum sviðum. Til dæmis bara í matargerð. Hér áður fyrr var oft gantast með það að þegar Ártúnsbrekkunni sleppti gæti maður ekki fengið sér neitt annað að borða en hamborgara og pylsur en þetta er gerbreytt í dag og um allt land er að finna frábæra veitingastaði sem eru reknir af fólki með ástríðu fyrir matargerð. Bæði heimamönnum og aðkomendum,“ segir Jónas og nefnir í því samhengi tvo staði á gamla radíusnum.

„Stofnendur Jómfrúarinnar, þeir Jakob Jakobsson og Guðmundur Guðjónsson, hafa til dæmis opnað Matkrána í Hveragerði, sem er mikill uppáhaldsstaður hjá mér, og svo er það hún Dagný sem rekur veitingahúsið Hendur í höfn í Þorlákshöfn. Það er algjör fyrstaflokksstaður. Á matseðlinum er að finna allt frá hamborgurum yfir í háklassa fiskrétti og steikur. Hún Dagný gerir allan matinn frá grunni og hráefnin eru fengið frá bændum í nágrenninu. Ég hvet alla til að prófa Hendur í höfn,“ segir Jónas heilshugar.

Upplifir orkuna frá Atlantshafinu

Hvað afþreyingu og upplifun á þessu svæði varðar nefnir Jónas til dæmis fjórhjólaferðir og siglingu á gúmmíbátum með fyrirtækinu Black Beach Tours.

„Meðal þess sem gerir Þorlákshöfn svo spes er þessi langa svarta sandfjara vestan við þorpið. Það er alveg frábær upplifun að leigja fjórhjól og bruna eftir fjörunni. Þá tekur við alveg ótrúlega fallegt klettabjarg sem er frábært að ganga meðfram. Að upplifa orkuna þegar Atlantshafið hamrar á klettunum er einfaldlega engu líkt,“ segir hann. „Svo fer ég líka oft út að Hafinu bláa við Óseyrarbrú. Að láta henda sér þar út og ganga svo berfættur í sandinum til Þorlákshafnar er toppurinn. Það er upplifun sem ég mæli með fyrir alla.“

Að fara í Þórsmörk var eins og að fara í messu

Jónas er einn þeirra sem hafa orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að ferðast um landið frá blautu barnsbeini. Fyrst með foreldrum sínum sem, voru miklir ferðalangar, og síðar með hljómsveitum.

„Þegar ég var lítill fór ég alltaf með foreldrum mínum inn í Þórsmörk á sumrin en í þeirra huga er Þórsmörk heilagasti staður jarðar. Pabbi bar mig á öxlum sér um Þórsmörkina þvera og endilanga en fyrir þeim var það að fara í Þórsmörk eins og að fara í messu. Þórsmörkin var þó ekki eini staðurinn sem þau fóru með mig á því við vorum þvers og kruss um allt land á sumrin þegar ég var ekki í sveitinni á Skýbakka. Núna á fjölskyldan bústað við Seljalandsfoss undir Eyjafjöllum og þangað fer ég enn reglulega en pabbi er fæddur og uppalinn á þessu svæði.“

Fær leiðsögn í skipulagningu frá mömmu og pabba

Spurður hvort hann sé með ferðaplön fyrir sumarið segir Jónas svo sannarlega vera.

„Stóra planið er að fara inn í Þórsmörk og ganga líka Fimmvörðuhálsinn. Ég fæ góða leiðsögn frá mömmu og pabba, sem eru nú bæði komin á hjúkrunarheimili. Það gleður þau bæði að hjálpa okkur konunni minni að skipuleggja ferðina enda fara þau létt með það. Pabbi var smali í Þórsmörk sem krakki, svo hann þekkir svæðið eins og lófann á sér. Svo var þetta bara aðalstaðurinn hjá ungu fólki í gamla daga. Það fór auðvitað enginn til útlanda heldur var bara farið út í náttúruna með gítar, nesti og góða skapið. Þessi gamla menning er svo heillandi og það er svo mikil og falleg rómantík sem foreldrar mínir og fleiri af eldri kynslóðum tengja við þessi svæði. Nú er Þórsmerkursvæðið mikið breytt, enda hefur uppbyggingin verið mikil. það eru komnir margir skálar og aðstaða fyrir ferðamenn sem var ekki fyrir hendi áður. Ferðin mín í sumar á því að verða eins konar rannsóknar- og skemmtiferð um Mörkina. Planið er að dvelja í bústaðnum, skoða kannski hálendið og taka svo Herjólf út í Eyjar og bjóða konunni út að borða á Slippnum, sem er einn besti staður landsins og þótt víðar væri leitað,“ segir Jónas.

Að lokum segir Jónas að þótt hann hafi verið svo heppinn að fá að sjá og skoða landið, bæði sem barn og fullorðinn, séu enn ótal staðir sem hann eigi eftir að heimsækja.

„Þetta er einhvern veginn þannig að þó að ég hafi séð fimm þúsund staði finnst mér ég eiga fleiri en fimm þúsund eftir. Því meira sem maður sér af Íslandi því meira langar mann að sjá því þetta er bara svo stórkostlegt land.“

„Það fór auðvitað enginn til útlanda heldur var bara farið út í náttúruna með gítar, nesti og góða skapið.“

„Því meira sem maður sér af Íslandi því meira langar mann að sjá því þetta er bara svo stórkostlegt land.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: