Hvað á að gera við ólétta stýrimenn?

Inga Fanney Egilsdóttir, stýrimaður á Lagarfossi, segir tæknina hafa gert …
Inga Fanney Egilsdóttir, stýrimaður á Lagarfossi, segir tæknina hafa gert starfið mun fjölskylduvænna. Ljósmynd/Aðsend

Í dag er allt of óal­gengt að finna megi kon­ur í áhöfn­um ís­lenskra skipa. Þær eru síðan enn færri sem hafa unnið á skip­um nán­ast allt sitt líf eins og Inga Fann­ey Eg­ils­dótt­ir, stýri­maður á Lag­ar­fossi.

Áhug­inn kviknaði á unglings­ár­un­um þegar Inga komst að því að jafn­öldr­ur henn­ar sem fengu að slást með í för á humar­veiðibát­um voru að þéna langt­um bet­ur en önn­ur ung­menni sem hún þekkti. Á löng­um ferli hef­ur Inga komið víða við, bæði á fiski- og flutn­inga­skip­um, sem kokk­ur, há­seti, ann­ar stýri­maður, fyrsti stýri­maður og yf­ir­stýri­maður. Hún var meira að segja skip­stjóri í nokkra daga á 100 manna ferðamanna­ferju og var send til Namib­íu af ís­lensk­um stjórn­völd­um til að vera stýri­maður á rann­sókn­ar­skipi þar. Hún fann sér líka mann í sjó­manna­stétt og eignaðist með hon­um son en það var eina skiptið sem Inga fór í land í lengri tíma. „Ég hafði reiknað það út að ef þáver­andi vinnu­veit­andi minn myndi flytja mig á annað skip gæti ég haldið áfram störf­um en verið minna á sjó, en slík breyt­ing kom ekki til greina þegar um hana var beðið og ég man hvað ég var fúl, mest út í sjálfa mig, ver­andi í stjórn stýri­manna­fé­lags­ins, yfir því að í samn­ing­um stýri­manna var ekk­ert að finna um hvað gera ætti við ólétta stýri­menn.“

Góð sátt um skipt­ingu verka á heim­il­inu

Núna er Inga rúm­lega sex­tug og á stöðugri ferð á milli Íslands og Evr­ópu­landa á skip­um Eim­skips. Hún unir sér vel á sjón­um, ligg­ur ekk­ert á að breyta til og bend­ir á að þó að starfi sjó­manns­ins fylgi ákveðnir ókost­ir þá séu kost­irn­ir líka marg­ir.

„Hér áður fyrr, fyr­ir tíma gáma­væðing­ar­inn­ar, gafst oft tími til að skoða sig um í borg­um og bæj­um á meðan verið var að ferma og af­ferma. Það ger­ist ennþá, t.d. ef verið er að flytja járn­blendi, að ef byrj­ar að rigna þarf að loka lest­inni í hvelli því eitruð gös geta mynd­ast ef járn­blendið blotn­ar. Er þá ekki um annað að velja en að bíða þar til stytt­ir upp og stund­um gefst þá tæki­færi til að svip­ast um ná­grenni hafn­ar­inn­ar. Man ég sér­stak­lega eft­ir ferð til Chicago fyr­ir mörg­um árum þar sem sækja þurfti farm af þur­refni sem sturtaðist í lest­ina af svo mikl­um krafti að mikið reyk­ský þyrlaðist upp og þurfti að gera hlé á störf­um um leið og birti til fram í myrk­ur. Fyr­ir vikið gat ég kíkt á Chicago-borg. Hjá Eim­skip er ég ekki í slík­um flutn­ing­um núna. Við erum á skip­um sem eru í mjög föst­um og hröðum áætl­un­um og eng­ar taf­ir nema vegna mjög slæms veðurs.“

Hinn nýi Lagarfoss kemur til Reykjavíkur í fyrsta sinn árið …
Hinn nýi Lag­ar­foss kem­ur til Reykja­vík­ur í fyrsta sinn árið 2016. mbl.is/Á​rni Sæ­berg

Inga og eig­inmaður henn­ar áttu ekki í nein­um vanda með að skipta á milli sín hús­verk­um og upp­eld­is­skyld­um og ríkti góð sátt um það fyr­ir­komu­lag sem var á heim­il­is­haldi þeirra og störf­um, en ætt­ingj­ar og vin­ir hlupu í skarðið þegar vinnu­skyld­ur þeirra sköruðust. „Það var gam­an að sjá að fyr­ir vikið urðu hann og son­ur okk­ar enn nán­ari og hafa fengið að kynn­ast vel þegar þeir voru tveir ein­ir heima. Maður­inn minn ákvað á end­an­um að skipta um starfs­vett­vang og vera al­farið í landi,“ seg­ir Inga. „Því miður var það al­gengt, og er að sumu leyti enn, að sjó­menn missa oft af því að tengj­ast börn­un­um sín­um því þeir eru svo lengi í burtu og nán­ast eins og gest­ir þá sjald­an þeir eru í landi.“

Gervi­hnatt­asím­inn bara notaður á aðfanga­dag

Bless­un­ar­lega er starf sjó­manns­ins mun fjöl­skyldu­vænna í dag en það var fyr­ir 20 eða 30 árum og seg­ir Inga það hrein­lega frá­bært að sjá sjó­menn ræða við maka sína og börn í gegn­um mynd­funda­for­rit. Sum­ir hafi það fyr­ir reglu að bjóða börn­un­um sín­um góða nótt fyr­ir hátt­inn hvern ein­asta dag og jafn­vel lesa fyr­ir þau sög­ur fyr­ir svefn­inn.

„Af er það sem áður var þegar fátt annað var í boði en að hringja í gegn­um gervi­hnött og hef­ur mín­útu­gjaldið senni­lega verið í kring­um þúsund­kall. Gervi­hnatt­asím­ann notuðu sjó­menn varla nema þegar börn­in þeirra fermd­ust eða til að hringja stutt sím­tal heim á aðfanga­dag,“ seg­ir Inga.

„Vinna sjó­manns­ins hef­ur líka þann kost að þegar maður er heima, þá er maður heima. Vinn­an er búin og fátt sem trufl­ar það að geta átt gæðastund­ir með fjöl­skyldu og vin­um. Son­ur okk­ar hafði ein­mitt á orði að eft­ir að faðir hans hætti að sigla og fékk sér vinnu í landi, þá varð hann minna sýni­leg­ur heima fyr­ir,“ seg­ir Inga en minn­ir á að á meðan fólk er á sjó þá sé ekk­ert sem heit­ir að stökkva í land ef eitt­hvað bját­ar á. „Það er kannski það erfiðasta; að ef eitt­hvað kem­ur fyr­ir heima; ef ein­hver ná­kom­inn manni veikist eða slasast, þá er ekk­ert sem sjó­maður­inn get­ur gert annað en að vera í sam­bandi sím­leiðis, og ekki hægt að kom­ast aft­ur heim fyrr en túrn­um er lokið.“

Skóla­stjór­inn hringdi í hana

Inga var þriðja kon­an til að setj­ast á skóla­bekk hjá Stýri­manna­skól­an­um, en hún var á báðum átt­um um það hvort hún ætti að frek­ar að fara í há­skóla­nám og hafði sótt um á báðum stöðum. „Jón­as Sig­urðsson, sem þá var skóla­stjóri Stýri­manna­skól­ans, frétti af um­sókn minni og hringdi í mig per­sónu­lega til að tjá mér að hann hefði skráð mig í bekk fyr­ir lengra komna, þar sem ég væri þegar með stúd­ents­próf og orðin tví­tug, og sagði mér hvenær ég ætti að mæta. Ég sló til en var ekki al­veg viss í minni sök þar til ég kom í skól­ann og upp­götvaði hvað mér þótti námið skemmti­legt. Hef ég aldrei séð eft­ir þessu vali.“
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: