Sunnudagar verða smáhundadagar í Kringlunni í sumar. Um tilraunaverkefni er að ræða og nær það til smáhunda og hefst í dag. Undirbúningur hefur staðið yfir í töluverðan tíma og kemur hugmyndin upphaflega frá rekstraraðila í Kringlunni sem sagðist hafa tekið eftir því að fólk, sérstaklega yngra fólk, kjósi í æ ríkara mæli að fá sér hund sem það hugsar um af mikilli natni.
„Sú tilfinning er í takti við það sem við í Kringlunni höfum merkt í fyrirspurnum frá viðskiptavinum þessa efnis sem langar að eiga notalega stund í Kringlunni án þess að þurfa að skilja litla hvuttann eftir heima. Það barst í tal að bjóða upp á smáhundakvöld, kannski eitt skipti, en svo vatt þetta upp á sig,“ segir Baldvina Snælaugsdóttir, markaðsstjóri Kringlunnar, í samtali við mbl.is.
Tilraunaverkefnið mun standa út sumarið, að minnsta kosti, og verða smáhundar því velkomnir í Kringluna alla sunnudaga. Verkefnið er unnið í nánu samstarfi við umhverfis- og auðlindaráðuneytið og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur. Samkvæmt reglugerð eru hundar ekki leyfðir í matvöruverslunum og mega því ekki fara í Bónus og Hagkaup.
Þá segir Baldvina að það sé í höndum rekstraraðila að leyfa dýr í verslunum. Öllum rekstraraðilum hefur verið tilkynnt um verkefnið og enginn hefur sett sig upp á móti því að sögn Baldvinu heldur hafa viðbrögðin aðeins verið jákvæð. „Hundarnir verða að sjálfsögðu að vera í taumi og í fylgd eiganda sem ber ábyrgð á hundinum frá a til ö,“ segir hún.
Systurnar Maren Freyja Haraldsdóttir og Ragnheiður Haralds Eiríksdóttir Bjarman eru himinlifandi með að geta tekið hundana sína, Láru og Mola, með í Kringluna á sunnudögum í sumar.
„Hún er rosalega félagslynd og hefur rosalega gaman af því að koma með mér flest sem ég fer og er mikið fyrir að fara á kaffihús,“ segir Maren um tíkina sína Láru, sjö ára faxhund (e. Chinese crested).
Hún hefur ferðast mikið með Láru í strætó frá því að gæludýr voru leyfð í vögnunum, en Kringlan hefur einmitt nýtt tilraunverkefni Strætó sem fyrirmynd að sínu verkefni. „Þetta eykur lífsgæðin hennar töluvert að geta verið meira með mér og eykur þar af leiðandi líka lífsgæði mín, að geta tekið hana með mér,“ segir Maren.
Ragga, eins og hún er gjarnan kölluð, á hundinn Mosa sem er af gerðinni Maltese og verður tveggja ára í ágúst. Sjálf er hún með ofnæmi fyrir flestum hundum en er á sama tíma mikill hundaaðdáandi. Það var því mikið gleðiefni þegar hún komst að því hún þolir tegundina Maltese. „Mosi er algjört kríli og hryllilega mjúkur og sætur og hefur mikið aðdráttarafl fyrir fólk á öllum aldri. Hann er afskaplega félagslyndur og á eftir að fíla það í botn að fara í Kringluna, þá bætist enn einn staðurinn við þar sem hann fær að hitta fólk,“ segir Ragga.
Systurnar eru sammála um að Lára og Moli gleðji fólk hvert sem þau fara en þær segjast skilja að ábyrgðin liggi alfarið hjá hundaeigendum hvað varðar umgengni hunda við fólk á almannafæri. „Lára fær fólk til að brosa og er mikill gleðigjafi en á sama tíma finnst mér mikilvægur punktur að ef ég upplifi að fólki finnist hundurinn minn óþægilegur þá vil ég taka ábyrgð á því, ég vil aldrei þröngva henni upp á neinn,“ segir Maren.
Hún bendir einnig á að þetta geri hundaeigendum kleift að þjálfa hunda sína í að umgangast aðra hunda og fólk á fjörförnum svæðum. „Þetta er smá aðlögunartími sem er fram undan en þetta verður ekkert mál. Mér finnst allir græða á þessu á endanum. Undirstaða þess að þetta gangi er gagnkvæmur skilningur hundaeigenda og annarra. Um leið og fólk er opið fyrir þessum ólíku lífsstílum myndast skilningur.“
Ragga bætir við að nærvera við hunda geti einnig gert fólki gott. „Það getur verið æðislegt ef einhver hittir hund og klappar honum, það er frábært ef viðkomandi hefur áhuga á því. En hundurinn þarf að kunna að hegða sér í svona aðstæðum.“
Systurnar ferðast mikið með strætó og segja að það muni koma sér vel að geta farið með Láru og Mola í strætó og Kringluna í sömu ferð þar sem hundarnir eru það smágerðir að þær geta ekki hugsað sér að skilja þá eftir bundna fyrir utan Kringluna. „Þeir eru líka svo flottir að þeim yrði bara stolið,“ segir Maren létt í bragði.
Systurnar hlakkar til að kíkja í Kringluna á sunnudögum í sumar og ætla þær að gera sér ferð fyrr en seinna. „Mosi er rosa spenntur að komast í Kringluna,“ segir Ragga og hlær. Baldvina, markaðsstjóri Kringlunnar, er sömuleiðis spennt, ekki síst fyrir því hvernig hundahald í Kringlunni tekst til. „Við köllum þetta krúttlega verkefnið, en vitum ekkert hvert það leiðir okkur,“ segir hún.