Fjárhagsáhyggjur jukust og fjarvinna reyndist vel. Þetta kemur fram í könnun Maskínu fyrir BSRB þar sem áhrif kórónuveirunnar á líf fólks voru könnuð. Tæplega 10% aðspurðra kvenna sögðust hafa þurft að leita eftir fjárhagsaðstoð og 5,6% karla.
Um helmingur aðspurðra sagði að gæðastundum með fjölskyldunni hefði fjölgað en 45,3% eldra fólks sögðu að þeim hefði fækkað nokkuð eða mikið.
Liðlega helmingur opinberra starfsmanna sagði álag í starfi sínu hafa aukist og ámóta margir sögðust eiga kost á fjarvinnu. Alls 58% sögðu að sér líkaði slíkt vinnufyrirkomulag vel, sérstaklega fólk þar sem börn eru á heimili.
„Niðurstöðurnar staðfesta mikið álag á stórum hluta þeirra sem sinntu almannaþjónustu í faraldrinum. Meðal okkar fólks eru fjölmennir hópar sem voru í framlínunni og undir miklu álagi,“ segir Magnús Már Guðmundsson, framkvæmdastjóri BSRB. Fram komi að vinnumarkaðurinn sé kynskiptur og hlutverkaskipting heima kynskipt.
„Það er brýnt að brjóta upp mannskemmandi mynstur þar sem þriðjungur kvenna vinnur hlutastörf, sem hefur áhrif á starfsframa, laun og lífeyrisréttindi. Það er mikilvægt að sveigjanlegri vinnumarkaður sé fyrir alla.“