Tónlistarkonan Beyoncé Knowles hvetur Daniel Cameron, ríkissaksóknara Kentucky-ríkis í Bandaríkjunum, til þess að leggja fram ákæru á hendur þremur lögreglumönnum sem komu að morðinu á Breonnu Taylor.
Taylor, 26 ára bráðaliði, var skotin átta sinnum á heimili sínu í Louisville 13. mars síðastliðinn, hún lést í kjölfarið. Hún var sofandi þegar lögreglan fór inn á heimili hennar. Lögregla hafði þá skipulagt húsleit sem hluta af stærri fíkniefnarannsókn. Heimildin sem lögreglan hafði til þess er svokölluð „no-nock warrant“ þar sem lögreglan hefur heimild til að fara inn á heimili fólks án þess að banka.
Á heimili Taylor var maki hennar sem lögreglan taldi vera blandaðan inn í fíkniefnamálið sem hún rannsakaði. Engin fíkniefni fundust á heimilinu.
Lögreglumennirnir þrír sem tóku þátt í aðgerðinni, þeir Jon Mattingly, Myles Cosgrove og Brett Hankinson, voru settir í leyfi en hafa ekki verið handteknir eða ákærðir fyrir morðið á Taylor.
„Þrír mánuðir eru liðnir, og fjölskylda Breonnu Taylor bíður enn eftir réttlæti fyrir hana,“ skrifaði Knowles í bréfi sínu sem hún deildi á vefsíðu sinni í gær. Athygli hefur verið vakin á máli Taylor eftir morðið á George Floyd í Minneapolis í lok maí.
Morðið á Taylor hefur þó haft áhrif á löggjöf í Louisville, en á fimmtudaginn í síðustu viku samþykkti borgarráðið að banna heimildir lögreglu til húsleitar án þess að banka.
Knowles sagði í bréfi sínu að breytingarnar væru lítið skref í rétta átt en minntu sárlega á að réttlæti hefur ekki fengist fyrir Breonnu Taylor. Í bréfi sínu gagnrýndi Knowles rannsókn lögreglunnar í Louisville harðlega og sagði hana skapa fleiri spurningar en hún svaraði.
Ríkissaksóknarinn Cameron hefur ekki svarað bréfi Knowles opinberlega en skrifstofa hans sagði á sunnudag að hann vissi af bréfinu.
Frétt BBC.