„Við upplifum þetta sem yfirgang af hálfu Reykjavíkurborgar. Stjórnvöld verða að grípa inn í og tryggja að ekki verði hróflað við þjóðvegum og stofnbrautum nema með samþykki og í góðri sátt við þau sveitarfélög sem hagsmuna hafa að gæta,“ segir Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, í samtali við Morgunblaðið.
Vísar hún í máli sínu til þess að Reykjavíkurborg vill nú koma fyrir alls sex ljósastýrðum gönguþverunum yfir Eiðsgranda, sem skilgreindur er sem þjóðvegur í byggð og er önnur helsta akbrautin út á Seltjarnarnes. Ásgerður segist fyrst hafa heyrt af þessum áformum í Morgunblaðinu 12. júní síðastliðinn þegar fjallað var um umdeilda framkvæmd við Eiðsgranda. Var það formaður skipulags- og samgönguráðs sem í viðtali greindi frá þessum áformum.
Ásgerður gagnrýnir borgina fyrir fullkomið samráðsleysi og segir skipulagsvald hennar ekki geta gengið svo langt að hamla samgöngum til Seltjarnarness og frá.
„Við erum sjálfstætt bæjarfélag og við eigum ekki að þurfa að vera í stanslausri varnarbaráttu með samgöngumál til og frá bænum. Þessu verður að breyta,“ segir hún.
Síendurtekið samráðsleysi
Ásgerður segir Reykjavíkurborg meðvitað vera að þrengja að sveitarfélagi sínu með truflunum á umferð.
„Við getum ekki á neinn hátt sætt okkur við að ítrekað og án samráðs sé þrengt að okkar stofnbrautum. Í ljósi þessa hef ég óskað eftir fundi með forstjóra Vegagerðarinnar til að ræða þessi mál,“ segir Ásgerður og heldur áfram:
„Reykjavíkurborg er meðvitað og ítrekað að þrengja að aðgengi að Seltjarnarnesi. Er það meðal annars gert með lækkun á hámarkshraða á Hringbraut niður í 40 km/klst, lengingu á ferðatíma fólks með ósamstilltum ljósum, strætóstoppistöð á miðri Geirsgötu og breytingu á gatnamótum Lækjargötu og Geirsgötu. Ég skil ekki þetta samráðsleysi. Við viljum öll tryggja gott flæði á götum, skapa öryggi fyrir gangandi og hjólandi ásamt því að tryggja gott aðgengi fyrir slökkvi- og sjúkrabíla ef til rýmingar kemur. Samráð og samvinna skiptir öllu máli fyrir þá sem búa í Vesturbæ Reykjavíkur og á Seltjarnarnesi.“
Þá segir Ásgerður allt benda til þess að ákvörðun um gönguþveranir hafi verið tekin án þess að fyrir liggi þarfagreining á nauðsyn þeirra.
„Ég hef ekki heyrt annað en að flæði umferðar sé nokkuð gott á Eiðsgranda. Og á það við um bílaumferð og umferð hjólandi, hlaupandi og gangandi vegfarenda,“ segir hún að endingu.
Fáðu þér áskrift til að lesa áfram
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu,
rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki
á mbl.is.