Á ferðalagi um Snæfellsnes er upplagt að heimsækja Sjóminjasafnið á Hellissandi. Safnið er á lóð sem fengið hefur nafnið Sjómannagarðurinn og var gefinn sjómönnum á svæðinu til að nota undir sín árlegu hátíðahöld. „Byrjað var á að koma fyrir styttu í garðinum árið 1974; Jöklurum eftir Ragnar Kjartansson og því næst var hafist handa við að endurreisa þurrabúðina Þorvaldarbúð en þar bjó fólk allt til ársins 1942. Loks var ráðist í að byggja Sjóminjasafnið þar sem í dag má finna þrjár áhugaverðar sýningar,“ segir Þóra Olsen, umsjónarmaður safnsins.
Hjá Sjóminjasafninu má finna marga áhugaverða gripi, bæði innan- og utandyra. Í Sjómannagarðinum eru t.d. varðveitt hvalbein, börnin geta leikið sér í netahringjum og áhugasamir spreytt sig á að lyfta eftirmyndum af steinatökunum í Djúpalóni. „Þá er gönguleið upp á hæðina fyrir ofan safnið og þaðan mjög gott útsýni yfir bæinn, hafið og fjöllin,“ útskýrir Þóra.
Í Sjóminjasafninu er rekið notalegt kaffihús þar sem m.a. eru seldar kleinur og vöfflur, en það fyrsta sem mætir gestum er ljósmyndasýningin Sagan okkar í sjálfu anddyrinu þar sem rakin er saga uppbyggingar hafnanna í Snæfellsbæ undanfarin 100 ár. „Þaðan er gengið yfir í sýninguna Náttúran við hafið þar sem skoða má vönduð sýnishorn af fiskum og fuglum af svæðinu, og börnin geta leikið sér að skeljasafni. Þá tekur við bíósalur þar sem sýndar eru fimm stuttmyndir í röð, og er gengið inn í sýninguna Sjósókn undir jökli og er þar m.a. að finna elsta fiskibát sem varðveittur er hér á landi; seglbátinn Blika sem smíðaður var árið 1826,“ útskýrir Þóra en Björn G. Björnsson leikmyndahönnuður á heiðurinn af hönnun sýninganna.
Safnið er opið alla daga vikunnar frá kl. 10 til 17 og kostar 1.300 kr. inn en ókeypis fyrir 16 ára og yngri. Segir Þóra flestum þykja mjög áhugavert að fræðast um sögu sjósóknar á svæðinu og að minnast harðrar lífsbaráttu fyrri kynslóða. „Það er merkilegt hvað þessi saga er nálæg okkur, og t.d. gaman að nefna að þeir Guðmundur og Jón Júlíussynir sem stofnuðu Nóatún og síðar Melabúðina gistu sem börn hér í þurrabúðinni hjá ömmu sinni sem þar bjó. Þessi tími er ekki fjarlægari okkur en það.“
Þóra minnir lesendur á að gefa sér líka tíma til að skoða Hellissand. „Hér má finna fögur útilistaverk, s.s. á gafli gamla frystihússins og á vegg félagsheimilisins, og upplagt að fá sér málsverð á veitingastaðnum Viðviki eða kaffihúsinu Gilbakka. Afskaplega fallegar gönguleiðir eru um svæðið, bæði meðfram strandlengjunni og upp með hrauninu.“