Trúverðugleiki Hafró beðið hnekki

Axel Helgason segir að búist hafi verið við afsökunarbeiðni frá …
Axel Helgason segir að búist hafi verið við afsökunarbeiðni frá Hafrannsóknastofnun eftir að stofnunin hafi þurft að draga til baka efasemdir um yfirlýsingar og gögn framleiðenda grásleppuhrogna. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er ánægður með að það sé komin niðurstaða. Það er búið að vera allt of langur aðdragandi. Miklum tíma hefur verið varið í það hjá mörgum að þetta yrði endurskoðað,“ segir Axel Helgason, fyrrverandi formaður Landssambands smábátaeigenda, í samtali við 200 mílur um að Hafrannsóknastofnun hafi leiðrétt útgefna ráðgjöf vegna grásleppuveiða.

Stofnunin tilkynnti í dag að þrenn mistök hafi orðið til þess að útgefin ráðgjöf varð 4.646 tonn í stað 5.200 tonn samkvæmt nýrri ráðgjöf. Frávíkið var því tæp 12%.

Axel segir að ítrekað hafi verið bent á að útreikningar stofnunarinnar hafi ekki verið réttir og að það hafi verið í miðri rannsókn, sem hófst í Stykkishólmi í síðustu viku, sem fulltrúar Hafrannsóknastofnunar áttuðu sig á að það væri augljóst að fyrri útreikningar stofnunarinnar gætu ekki staðist. „Í miðri rannsókn kom símtal frá yfirmanni uppsjávarsviðs Hafró og sagði hann að þeir ætluðu að draga lækkunina til baka sem væri byggð á vitlausum útreikningum.“

Hefði búist við afsökun

Trúverðugleiki stofnunarinnar og yfirmanns uppsjávarsviðs hefur beðið mikla hnekki, að mati Axels. „Hann færði rök fyrir því að það væri ekki hægt að nota tölur um nýtingarhlutfall frá framleiðendum grásleppuhrogna vegna þess að það væri komin einhver ný tækni í verkun hrogna, sem er ekki rétt.“

Hann kveðst ekki sáttur við að Hafrannsóknastofnun hafi dregið í efa yfirlýsingu og gögn frá framleiðendum um nýtingu á grásleppu. „Það er eitt við að eiga þegar einstakir sjómenn efast um trúverðugleika Hafró. En núna þegar öll greinin, verkunaraðilar og þeir sem stunda þessar veiðar, sér að stofnunin færir rök fyrir ákvörðunum sínum sem standast enga skoðun, þá hefði maður búist við því að stofnunin sendi frá sér afsökunarbeiðni.

Þeir fullyrtu hluti sem reyndust ekki réttir og á meðan sú fullyrðing stendur enn þá hjá yfirmanni uppsjávarsviðs, að það sé til einhver ný verkunaraðferð á hrognum sem gefur eitthvert annað nýtingarhlutfall, þá hefur stofnunin ekki enn leiðrétt rangfærslurnar að fullu,“ útskýrir Axel.

mbl.is