„Ég tek geðlyf af því að ég þarf á þeim að halda“

Ólafur Darri Ólafsson leikari var gestur Sölva Tryggvasonar í nýjum …
Ólafur Darri Ólafsson leikari var gestur Sölva Tryggvasonar í nýjum hlaðvarpsþætti hans, Podkast með Sölva Tryggva. mbl.is/Árni Sæberg

Stórleikarinn Ólafur Darri Ólafsson opnar sig upp á gátt um geðlyfjanotkun, kvíða og erfiðustu tímabilin í lífinu í viðtali við Sölva Tryggvason í nýju podcasti Sölva. 

Sölvi Tryggvason er byrjaður með hlaðvarp, Podkast með Sölva Tryggva.
Sölvi Tryggvason er byrjaður með hlaðvarp, Podkast með Sölva Tryggva.

Hann upplifði hræðilegt tímabil fljótlega eftir að hann eignaðist sitt fyrsta barn, þar sem hann sökk djúpt niður og þurfti að leita sér hjálpar. Hann man í raun lítið eftir þessu tímabili, sem er enn í hálfgerðri þoku. Eftir það tímabil áttaði hann sig á því að hann gerði engum greiða með því að halda í stolt gagnvart lyfjanotkun.

„Að viðurkenna vanmátt sinn er einn vanmetnasti hlutur í okkar samfélagi [...] Ég tek lyf af því að ég þarf stundum á þeim að halda. Ég tek fluoxetin, quetapin og svefnpillu áður en ég fer að sofa,” segir Ólafur, sem telur enn mikla skömm ríkja um lyf vegna andlegra sjúkdóma og finnst umræðan um slíka lyfjanotkun oft vera á algjörum villigötum.

Í viðtalinu upplýsir Ólafur Darri að hann hafi reglulega þurft að taka lyf við kvíða og þunglyndi og eins hafi hann á löngum köflum þurft á svefnlyfjum að halda. Hann skilur ekki fordóma gagnvart þeim sem leita sér hjálpar og notast við þau verkfæri sem í boði eru. Ólafur hefur notið aðstoðar sálfræðings og geðlæknis við að komast á miklu betri stað. Auðvitað sé besta lausnin að notast við blöndu af öllum aðferðum til að ná sér í betra stand ef fólk upplifir mikla vanlíðan, en skömm vegna lyfja sé algjörlega fráleit.

„Mér finnst þetta þreyttasta fréttin sem kemur,” segir Ólafur Darri um fréttir af því þar sem geðlyfjanotkun Íslendinga er sett upp með þeim hætti að það búi til skömm hjá þeim sem þurfa að nota þau. 

Í viðtalinu fara Ólafur Darri og Sölvi yfir leiklistina, launamálin, dýpstu dalina og hæstu hæðirnar.

 

Hér er hægt að hlusta á þáttinn á Spotify: 

mbl.is