Ólafur Darri fær 10 milljónir króna fyrir hvert hlutverk

Ólafur Darri Ólafsson leikari.
Ólafur Darri Ólafsson leikari. mbl.is/Árni Sæberg

Ólafur Darri Ólafsson hefur upplifað alls kyns tímabil þegar kemur að peningum. Í viðtali við Sölva Tryggvason í nýju podcasti Sölva upplýsir hann hvað hann þénar fyrir hvert hlutverk, en hann hefur alls ekki alltaf verið hátt launaður eða á góðum stað í peningamálum.

Sölvi Tryggvason er byrjaður með hlaðvarp, Podkast með Sölva Tryggva.
Sölvi Tryggvason er byrjaður með hlaðvarp, Podkast með Sölva Tryggva.

„Ég man eftir einu augnabliki í kringum þrítugt þar sem ég horfði á allar skuldir mínar á pappír og var bara vonlaus. Ég mun aldrei tækla þetta,“ segir Ólafur í spjallinu við Sölva. Hann segist smátt og smátt hafa rétt úr kútnum í fjármálum með því að taka þau algjörlega í gegn

Þegar Ólafur Darri var rekinn úr Borgarleikhúsinu sá hann ekki fyrir að hann kæmist í þá stöðu að fá vel borgað fyrir leiklistina, enda þótti það fráleit hugmynd að ná frama erlendis. Í dag fær Ólafur Darri býsna vel borgað fyrir listina og segist nú fá 10 milljónir eða meira fyrir hvert hlutverk.

„Fólk fer oft í kringum peningaumræðu, en það er ekkert leyndarmál að hjá mér, ef ég er að leika sæmilegt hlutverk, þá er ég að fá 10 milljónir eða þar yfir,” en bætir við að það sé mjög misjafnt hvað vinnan við eina slíka mynd tekur langan tíma.

Í viðtalinu fara Ólafur Darri og Sölvi yfir leiklistina, launamálin, dýpstu dalina og hæstu hæðirnar. 

Hér er hægt að hlusta á þáttinn í Spotify:



 

mbl.is