Sæunn Þorsteinsdóttir leikur allar sex sellósvítur Bachs á sumarstólstöðum í sex kirkjum — ein svíta í hverri kirkju. Með því að slást með í för kynnast tónleikagestir sveitakirkjum, þorpum, heimamönnum, upplifa þrjá firði, dali og eilífðarbirtu þegar dagurinn eins langur og hann verður — endalaus.
Sæunn hefur skipað sér í fremstu röð íslenskra einleikara og kemur reglulega fram víða um heim. Hún er sjálf búsett í Bandaríkjunum og kennir meðal annars við Washington-háskólann í Seattle. Undafarin misseri hefur hún leikið reglulega með Sinfóníhljómsveit Íslands. Einhverjir muna sjálfsagt eftir því þegar hún spilaði lokakafla sellókonserts Daníels Bjarnasonar á Klassíkin okkar haustið 2018.
Hún hefur gefið út tvær einleiksplötur. Í fyrra kom út platan Vernacular sem hefur að geyma fjögur íslensk verk fyrir einleiksselló. Þrjú þeirra sérstaklega samin fyrir Sæunni. Áður hafði Sæunn tekið upp og gefið út sellósvíturnar þrjár eftir Benjamín Britten.
Nú mætir Sæunn með aðrar sellósvítur í farteskinu. Það eru ekki bara hvaða svítur sem er heldur þær sem einhverjir myndu kannski kalla svítur allra svíta. Sjálfar sellósvítur Johanns Sebastians Bach sem hann samdi fyrir réttum 300 árum. Um er að ræða sex verk (BWV 1007–1012) sem hvert um sig er saman sett úr 6 stuttum köflum. Allar byrja þær á prelódíu og svo fylgja fimm dansar.
Sæunn ætlar að leika allar svíturnar sex á sumarsólstöðum, 20. júní, í sex kirkjum — eina svítu í hverri kirkju, byrja kl. 1 eftir hádegi, telja aftur í kl. 3, svo kl. 5, þá kl. 7, kl. 9 og loks kl. 11.
13:00 — Þingeyrarkirkja, Þingeyri við Dýrafjörð
15:00 — Mýrarkirkja, Mýrum í Dýrafirði
17:00 — Kirkjubólk í Valþjófsdal við Önundarfjörð
19:00 — Flateyrarkirkja, Flateyri við Önundarfjörð
21:00 — Suðureyrarkirkja, Suðureyri við Súgandafjörð
23:00 — Staður í Súgandafirði
Þetta verður ekki í fyrsta sinn sem þessi verk hljóma undir hásumarsólinni vestra. Ísfirsk-danski sellóleikarinn Erling Blöndal Bengtsson var líkt og kollegi hans Sæunn nokkuð tíður gestur á heimaslóðum á síðari hluta ævi sinnar. Á mjög eftirminnilegum tónleikum í Hömrum á Jónsmessu 2007 steig þessi 75 ára listamaður á svið og lék fyrstu svítuna blaðlaust fyrir tónleikagesti og á öldum ljósvakans.