Fengu tilkynningu um skjálftann úr Kópavogi

Íbúar og gestir á Siglufirði fundu mest fyrir skjálftanum.
Íbúar og gestir á Siglufirði fundu mest fyrir skjálftanum. mbl.is

Veðurstofu Íslands barst fjölmargar tilkynningar vegna jarðskjálfta af stærð 5,3 sem varð á Tjörnesbrotabeltinu, úti fyrir Norðurströndinni. 

Ríkislögreglustjóri hefur í samráði við Lögreglustjórann á Norðurlandi eystra lýst yfir óvissustigi almannavarna vegna jarðskjálftahrinunnar. Ekki er talin þörf á því að virkja samhæfingarmiðstöð almannavarna að svo stöddu en almannavarnir fylgjast grannt með gangi mála. 

„Þessi stóri skjálfti sem varð þarna um klukkan 5 mínútur yfir þrjú, hann varð 5,3 að stærð. Eftir að við settum hann í fleiri og fleiri líkön fór hann niður í þá stærð,“ segir Böðvar Sveinsson, náttúruvársérfræðingur. Fyrstu mælingar bentu til að skjálftinn væri á bilinu 5,2 til 5,6 að stærð. 

Þá hafa verið nokkuð margir eftirskjálftar og sumir heldur stórir. 

Veðurstofunni hafa borist fjölmargar tilkynningar frá fólki sem fann fyrir …
Veðurstofunni hafa borist fjölmargar tilkynningar frá fólki sem fann fyrir skjálftanum, allt frá Dalasýslu til Húsavíkur. Úr Hörgárdal bárust tilkynningar um hluti sem hrundu úr hillum. Kort/Veðurstofan

„Það er búið að vera eitthvað af eftirskjálftum. Það hafa verið allt í allt 27 skjálftar sem hafa verið frá þremur upp í 4,1 af stærð í þessari hrinu. Af þeim voru 17 sem komu eftir stóra skjálftann í dag, hingað til,“ segir Böðvar. 

Skjálftahrinan hefur staðið yfir á Tjörnesbrotabeltinu síðan um hádegi í gær en á milli klukkan sjö og átta í gærkvöldi færðist aukið líf í hrinuna. 

„Við erum búin að bæta við mannskap, kölluðum út fólk og það gerum við í rauninni óháð almannavarnastigi. Við funduðum með almannavörnum áðan og það er áfram fylgst með. Það er alltaf möguleiki á fleiri skjálftum sem finnast í byggð,“ segir Böðvar. 

Hann segir að Veðurstofu hafi borist tilkynningar um skjálftann frá fjölmörgum stöðum. 

„Stóri skjálftinn fannst eiginlega bara út um allt. Í Húsavík, lengst inni í Eyjafirði, á Blönduósi, í Dölunum og við fengum meira að segja tilkynningu úr Kópavogi.“ 

mbl.is