Mikill fjöldi ferðamanna á skjálftasvæðinu

Sumarsólin skín á Akureyri.
Sumarsólin skín á Akureyri.

Mikið er um ferðamenn á Akureyri og Siglufirði þessa helgina, en jarðskjálfti af stærð 5,3 varð úti fyrir norðurströndinni á Tjörnesbrotabeltinu rétt eftir klukkan 15 í dag. 

Elías Pétursson, bæjarstjóri Fjallabyggðar, segist ekki hafa heyrt af því að nokkurt tjón hafi orðið hjá bæjarbúum Siglufjarðar vegna skjálftans. 

„Það hefur ekkert gerst sem ég veit að. Ekkert tjón eða neitt þess háttar sem ég veit af. En þetta var alvöru jarðskjálfti, það skalf allt og nötraði,“ segir Elías. 

Hann segir bæinn fullan af íslenskum ferðamönnum og allt sé nú með kyrrum kjörum. Hann hafi þó fundið fyrir eftirskjálftum. 

„Við fundum alveg fyrir þeim en það var ekkert í líkingu við hitt.“

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrar, segir einnig vera mikið um ferðamenn á Akureyri. „Bærinn er alveg stútfullur, enda sól og meira en 20 stiga hiti. Hér eru núna allir að njóta veðurblíðunnar.“

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að ekki hafi verið óskað eftir aðstoð björgunarsveita vegna skjálftans. 

mbl.is