Verkefni Slysavarnaskólans aldrei lokið

Hinn 29. maí varð Slysavarnaskóli sjómanna 35 ára og er …
Hinn 29. maí varð Slysavarnaskóli sjómanna 35 ára og er ekki hægt að segja annað en gríðarleg framför hafi orðið í öryggismálum sjómanna frá þeim tíma. Erfitt var að ná til sjómanna í upphafi að sögn skólastjórans Hilmars Snorrasonar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hinn 29. maí varð Slysa­varna­skóli sjó­manna 35 ára og er ekki hægt að segja annað en gríðarleg fram­för hafi orðið í ör­ygg­is­mál­um sjó­manna frá þeim tíma.

„Það verður nú að segj­ast eins og er að það að hafa náð þeim ár­angri 2008, að ekki urðu nein bana­slys á sjó, er gríðarleg­ur ár­ang­ur. Síðan var þetta end­ur­tekið 2011, 2014, 2017, 2018 og 2019. Það er ekki hægt að segja annað en sjó­menn hafi sann­ar­lega tekið ör­ygg­is­mál­in föst­um tök­um þegar maður horf­ir til þess, þeir fá auðvitað þekk­ingu hjá okk­ur en verða að vinna úr því, og það er þá ár­ang­ur sem við sjá­um hjá sjó­mönn­um,“ seg­ir Hilm­ar Snorra­son, skóla­stjóri Slysa­varna­skóla sjó­manna. Hann hef­ur gegnt starf­inu í 29 ár en var skip­stjóri á flutn­inga­skipi þar áður.

„Það er auðvitað margt sem kem­ur til. Menn eru að fá nýrri skip og þá er björg­un­ar­hlut­inn líka öfl­ug­ur, björg­un­ar­skip, varðskip og þyrl­ur. Þannig að viðbragðið er fljót­ara ef menn lenda í vand­ræðum. Veður­frétt­ir betri, þannig að menn eru kannski ekki að leggja út í tví­sýn veður. Þeir vita hverju þeir mega bú­ast við. Svo má ekki gleyma því að trygg­inga­fé­lög­in hafa einnig lagt áherslu á aukið ör­yggi hjá sín­um viðskipta­vin­um og ekki síður hjá út­gerðum en öðrum. Það er margt sem hjálp­ast að, en ár­ang­ur­inn hef­ur sann­ar­lega skilað sér,“ út­skýr­ir hann.

Ljós­mynd/​Slysa­varna­skóli sjó­manna

Rætt um feimn­is­mál

„Það var ákveðið að 29. maí yrði stofndag­ur skól­ans þó svo hann hafi byrjað nokkr­um dög­um fyrr. Sjálf­ur myndi ég segja að hann hefði byrjað 26. maí, en það er bara af því að ég á af­mæli þann dag,“ seg­ir Hilm­ar og hlær. „Á þess­um degi hafði verið kynn­ing­ar­nám­skeið í Grinda­vík og dag­inn áður höfðu þeir [full­trú­ar Slysa­varna­skól­ans] verið um borð í skipi sem ég var stýri­maður á. Þeir komu um borð til okk­ar til þess að sjá hvernig viðbrögðin voru hjá okk­ur og ég var með áhöfn sem ég var mikið bú­inn að vera að þjálfa, þannig að ég var rosa­lega mont­inn af því að þeir skyldu byrja á að koma um borð í skip sem ég var stýri­maður á. Við stóðum okk­ur virki­lega vel, segi ég.

Þetta byrj­ar '85 og þá voru nám­skeiðin styttri og lögð áhersla á að menn væru að gera hluti sem þeir höfðu aldrei gert áður, sem var að taka fram björg­un­ar- og ör­ygg­is­búnað skipa sinna. Þetta var feimn­is­mál. Umræður um ör­ygg­is­mál­in urðu aldrei mikl­ar um borð í skip­un­um, því þá fengu menn gjarn­an á sig að þeir væru sjó­hrædd­ir og spurt hvort þeir gætu ekki komið sér eitt­hvað annað. Með til­komu Slysa­varna­skól­ans er byrjað að reyna að fá menn til þess að tala um hluti og draga þá fram, vera óhrædd­ir við að kíkja á búnaðinn. Hægt og bít­andi fara menn að sjá að þeir kunna ekki til verka eins og þeir vildu meina,“ svar­ar Hilm­ar spurður hvernig það var þegar skól­inn hóf starf­semi sína.

Öryggismál sjómanna þóttu lengi feimnismál, en nú er viðurkennt að …
Örygg­is­mál sjó­manna þóttu lengi feimn­is­mál, en nú er viður­kennt að skjót og rétt viðbrögð geta skipt veru­legu máli. Ljós­mynd/​Slysa­varna­skóli sjó­manna

Hilm­ar seg­ir að í upp­hafi hafi skól­inn þurft að berj­ast fyr­ir til­veru sinni þar sem sjó­menn voru á þeim tíma ekki sér­lega meðtæki­leg­ir og erfitt að fá þá til að sækja nám­skeið. Þá hafi verið mik­ill styrk­ur að Slysa­varna­fé­lagið hafi staðið þétt að baki skól­an­um. „Það voru kvenna­deild­ar fé­lags­ins í þess­um sjáv­ar­pláss­um, eig­in­kon­ur sjó­mann­anna, sem sögðu bara: Þið farið á nám­skeið. Þannig fer þetta hægt og bít­andi að koma skrið á að menn mæti á nám­skeið,“ út­skýr­ir hann.

Nám­skeiðin voru styttri í byrj­un, að sögn skóla­stjór­ans sem bend­ir á að nám­skeiðsdög­um hafði fjölgað í fjóra þegar hann hóf störf við skól­ann 1991. „Menn voru að vakna til lífs­ins um að þetta væri eitt­hvað sem við þyrft­um að beina at­hygli okk­ar að.“

Keyptu varðskip fyr­ir þúsund krón­ur

„Skól­inn byrj­ar fyrst í hús­næði Slysa­varna­fé­lags­ins og var síðan færður í varðskipið Þór, við keypt­um hann fyr­ir þúsund­kall '86. Skipið var keypt af skól­an­um og hef­ur skól­inn starfað um borð í því all­ar göt­ur síðan. Árið 1998, þegar Hval­fjarðargöng­in voru opnuð, feng­um við Akra­borg­ina gef­ins af rík­inu og breytt­um henni í skóla og höf­um verið þar síðan. Skipið hef­ur nú borið nafnið Sæ­björg leng­ur en það hét Akra­borg, sem seg­ir hversu vel þetta skip hef­ur þjónað, ekki bara sem ferja held­ur ekki síður sem skóla­skip – gríðarleg­ur fjöldi sjó­manna hef­ur farið hér í gegn.“

Sæbjörg er komin til ára sinna og eru bundnar vonir …
Sæ­björg er kom­in til ára sinna og eru bundn­ar von­ir við að hægt verði að end­ur­nýja skipa­kost skól­ans. Ljós­mynd/​Slysa­varna­skóli sjó­manna

Spurður hvort mikl­ar breyt­ing­ar hafi orðið á náms­efni skól­ans á þess­um 35 árum frá stofn­un seg­ir hann svo vera. „Það eru auðvitað ákveðnar breyt­ing­ar sem verða á öll­um nám­skeiðum, það verður breyt­ing í búnaði, menn eru komn­ir á nýrri skip og allt önn­ur tækni notuð. En það má segja að upp úr '91 eða um '92 fór­um við að leggja áherslu á for­varn­ir og það hef­ur alltaf verið mik­il­væg­ur þátt­ur í ör­ygg­is­mál­um sjó­manna að sinna for­vörn­um; að menn leggi af mörk­um vinnu um borð í skip­un­um til þess að koma í veg fyr­ir slys eða óhöpp og koma heil­ir heim.

Við höf­um unnið að þessu með trygg­inga­fé­lög­un­um með mjög góðum ár­angri, þar sem við höf­um heim­sótt skip og út­gerðir. Þar leggj­um við áherslu á að gert sé áhættumat og at­vika­skrán­ingu sé viðhaldið þannig að við vit­um raun­veru­lega hvað er að ger­ast um borð í skip­un­um.

Stjórn­völd mik­il­væg

Það var auðvitað stórt skref sem stjórn­völd tóku þegar þau ákváðu að lög­festa ör­ygg­is­fræðslu áhafna ís­lenskra skipa,“ seg­ir Hilm­ar, en lög­fest­ing­in tók nokk­urn tíma. Í lög­um um Slysa­varna­skóla sjó­manna, sem samþykkt voru á Alþingi 1991, var kveðið á um í bráðabirgðaákvæði að ráðherra yrði falið að leita leiða til að skylda sjó­menn í ör­ygg­is­fræðslu. Frum­varp þess efn­is var lagt fyr­ir Alþingi 1992 en fékk ekki af­greiðslu og var lagt fram á ný 1993, en var loks samþykkt 1994.

Var talið að laga­setn­ing­in kynni að vera nokkuð íþyngj­andi þar sem heilli stétt myndi allt í einu vera óheim­ilt að starfa án þess að hafa sótt um­rædda fræðslu og því gef­inn aðlög­un­ar­frest­ur fyr­ir skip­stjórn­ar­menn til 31. des­em­ber 1995 og til 31. des­em­ber 1996 fyr­ir aðra skip­verja. Ekki nóg með það held­ur bend­ir Hilm­ar á að efnið hafi verið um­deilt og send inn kvört­un til um­borðsmanns Alþing­is vegna máls­ins. Alþingi tók síðan ákvörðun 1995 um að fram­lengja frest­inn til árs­loka 1996, en það ár var ákveðið að fram­lengja frest­inn á ný. Þá til árs­loka 1997.

Gríðarlegur fjöldi hefur sótt námskeið slysavarnaskóland frá því að hann …
Gríðarleg­ur fjöldi hef­ur sótt nám­skeið slysa­varna­skó­land frá því að hann var stofnaður fyr­ir 35 árum. Ljós­mynd/​Slysa­varna­skóli sjó­manna

„Það tók nokk­ur ár að kom­ast yfir þann hjall, það voru auðvitað marg­ir sjó­menn, fleiri en í dag. Og það var mál að koma þeim öll­um í gegn,“ seg­ir Hilm­ar. „Þetta viðhorf; ég kann þetta allt, var dá­lítið ríkj­andi. Ég man alltaf eft­ir því að það kom einn al­veg draug­fúll inn á nám­skeið og ég hugsaði með mér að það yrði gam­an að heyra í hon­um eft­ir nám­skeiðið hvernig hon­um fynd­ist. Hann sat svona fýld­ur allt nám­skeiðið og svo í lok­in stóð hann upp og vildi fá að tjá sig. Ég leyfði hon­um það og þá sagði hann: Ég er bú­inn að sjá í hvaða villu­vef ég hef verið, því ég hef alltaf sagt að ég hafi ekk­ert að læra en ég vissi lítið sem ekki neitt,“ rifjar hann upp. „Þetta hef­ur alltaf verið í mín­um huga einn af þess­um eft­ir­minni­legu vendipunkt­um fyr­ir þessa menn sem þráuðust við og sáu loks ljósið sem lýsti fyr­ir þá veg­inn fram á við.“

Hann tel­ur stjórn­völd hafa gegnt mik­il­vægu hlut­verki í að tryggja ör­ygg­is­fræðslu fyr­ir sjó­menn þar sem þau hafa með lög­um og reglu­gerðum fest hana í sessi. Jafn­framt bend­ir hann á þann feng að Slysa­varna­fé­lag­inu hafi verið gef­in tvö skóla­skip. „Þetta er fram­lag til ör­ygg­is­fræðslu og við fáum styrk frá rík­inu sem er niður­greiðsla svo að nám­skeiðin geta verið ódýr­ari fyr­ir sjó­menn. Stjórn­völd eiga því mjög mik­inn þátt í að efla ör­yggi sjó­manna.

Síðan tóku stjórn­völd þau skref að setja á end­ur­mennt­un­ar­kröfu í ör­ygg­is­fræðslu fyr­ir sjó­menn og 2003 tók hún gildi. Þá voru eng­ar aðrar þjóðir komn­ar svo langt. Við vor­um á und­an öðrum þjóðum að gera kröfu um end­ur­mennt­un á fimm ára fresti. Það tók smá tíma að koma mönn­um í þá rútínu en nú rúll­ar þetta í gegn. Menn koma hérna á fimm ára fresti og eng­in und­an­tekn­ing á því.“ Hann seg­ir samt að ein­hverj­ir kunni að vera á sjó nokkra daga um­fram út­gef­inn frest vegna aðstæðna en lög­skrán­ing­ar­kerfi sem starf­rækt er komi í veg fyr­ir að hægt sé að vera á sjó til að kom­ast hjá nám­skeiðum.

Þrýst­ing­ur í sam­fé­lag­inu

Spurður hvort þessi þrjóska og feimni við ör­ygg­is­mál­in sé horf­in svar­ar Hilm­ar því ját­andi. „Maður heyr­ir ekk­ert leng­ur neitt svo­leiðis. Það sem meira er sé ég að þegar birt­ar eru mynd­ir á þess­um sam­fé­lags­miðlum, eins og Face­book og Twitter, af ein­hverj­um sem er að gera eitt­hvað sem er ekki al­veg í lagi hvað varðar ör­yggið eru menn al­veg strax farn­ir að benda á það. Þetta seg­ir mér að menn eru miklu meira vak­andi yfir þessu. Hér áður fyrr sá ég stund­um á sam­fé­lags­miðlum spurt: Hvað haldið þið að Hilm­ar segi við þessu?“ seg­ir hann og skell­ir upp úr.

Það dugar ekki að búnaðurinn sé til staðar, það þarf …
Það dug­ar ekki að búnaður­inn sé til staðar, það þarf að kunna á hann. Ljós­mynd/​Slysa­varna­skóli sjó­manna

„Maður var orðinn hálf­gerð grýla, en núna spyrja menn hvers vegna viðkom­andi er ekki með hjálm, af hverju ekki í skóm, af hverju ekki svona eða hinseg­in. Ef það er ekki í lagi með ör­ygg­is­mál­in á ein­hverri mynd fá þeir at­huga­semd­ir, það er þessi hug­ar­fars­breyt­ing sem hef­ur orðið og sann­ar­lega aukið ör­yggi hjá okk­ar mönn­um.“

Enn mörg slys

Þrátt fyr­ir að dauðsföll­um á sjó hafi fækkað gíf­ur­lega á und­an­förn­um árum verður tals­verður fjöldi skráðra slysa á hverju ári. „Eitt er skráð slys og hitt hverj­ar af­leiðing­arn­ar eru. Við höf­um alltaf hvatt til þess að menn til­kynni óhöpp og slys sem þeir verða fyr­ir vegna þess að af því drög­um við ákveðinn lær­dóm. Við lær­um for­varn­ir af því hverju aðrir hafa hafa lent í. Það er ekki þar með sagt að öll þessi slys á sjó séu bóta­skyld eða al­var­leg. Auðvitað er hvert ein­asta skys al­var­legt, það er ekki spurn­ing. En ég hef verið í rann­sókna­nefnd sam­göngu­slysa frá ár­inu 1995 og þar hef ég séð al­veg gríðarlega breyt­ingu á eðli slys­anna og af­leiðing­um þeirra. Hér áður fyrr sáum við miklu meira af því að sjó­menn yrðu ör­yrkj­ar í kjöl­far slysa, menn misstu limi og þess hátt­ar. Þetta sér maður varla í dag.

Hins veg­ar höf­um við tekið eft­ir því að það sem hef­ur verið að ger­ast og auk­ist dá­lítið hjá okk­ur í rann­sókn­um á sjó­slys­um er að menn sigla á land af því að þeir sofna. Þeir eru orðnir þreytt­ir og halda sér ekki vak­andi og enda uppi í fjöru, sem er háal­var­legt mál.“

Hann er spurður hvað sé til ráða í þess­um efn­um, enda sé það ljóst að ekki er fýsi­legt að ná hvíld á sjó. „Fólk þarf sann­ar­lega að huga að því þegar lagt er á sjó­inn að það geng­ur ekki að hafa verið vak­andi í 10 til 15 tíma og skella sér svo á sjó­inn í aðra 14. Ef það er bara einn maður á, þá er ekk­ert til skipt­anna að fara að sofa eða hvíla sig. Það þarf alltaf að vera ein­hver sem fylg­ist með sigl­ingu skips­ins,“ seg­ir Hilm­ar og bend­ir á að þótt það séu tveir eða fleiri um borð verði all­ir sem koma að sigl­ingu skips að hafa til­skil­in rétt­indi og því tak­mark­ast mögu­leiki til þess að skipt­ast á til að ná hvíld á meðan siglt er. „Þá eru 14 tím­arn­ir nokkuð lang­ur tími. Þú mátt hvorki fljúga flug­vél né keyra vöru­bíl í þenn­an tíma einn. Þetta er lang­ur tími án hvíld­ar.“

Í des­em­ber síðastliðnum var samþykkt á Alþingi frum­varp um að minnka mönn­un­ar­kröf­ur um borð í bát­um sem voru yfir 12,5 metr­ar og voru mörk mönn­un­ar­kröf­unn­ar færð upp í 15 metra. Spurður hvort hann telji þessa þróun til þess fallna að draga úr ör­yggi líkt og sum­ir hafa haldið fram svar­ar Hilm­ar: „Ég ætla bara að benda á að við erum að fá báta upp á land vegna þess að menn eru sof­andi við stjórn­völ­inn. Ef menn ætla að fækka um borð í skip­un­um meira en orðið er mun það ástand ekki lag­ast. Við verðum alltaf að hugsa málið út frá ör­ygg­is­sjón­ar­miðum og ör­ygg­is­sjón­ar­miðið hlýt­ur að vera að menn séu vak­andi um borð í skip­un­um á meðan þeim er siglt. Ef við ætl­um að standa vörð um vinnu- og hvíld­ar­tíma­ákvæði sem eru í gildi get­um við ekki gert það nema lög og regl­ur styðji það. Þess vegna þurf­um við að huga að því hversu langt við ætl­um að fara í því að fækka mönn­um um borð, bæði rétt­inda­mönn­um og öðrum skip­verj­um.“

Ekki hætt­ur

Hilm­ar seg­ir ör­ygg­is­mál­in aldrei átaks­verk­efni þar sem um er að ræða viðvar­andi verk­efni. „Átaks­verk­efn­um lýk­ur þegar ákveðnum áfanga er náð en okk­ar áfanga hjá Slysa­varna­skól­an­um lýk­ur aldrei. Eins og ég segi þá hef ég aldrei út­skrifað nem­anda í þessi 29 ár sem ég er bú­inn að vera hér, því það er ekki hægt að út­skrif­ast úr ör­ygg­is­mál­um. Við verðum alltaf að vera að. [...] Við meg­um ekki gleyma okk­ur í unn­um sigr­um. Þótt við höf­um náð góðum ár­angri í bana­slys­um á sjó meg­um við ekki hvika frá því að halda uppi öfl­ugu starfi. Það þarf svo lítið til að breyt­ing verði á.“

Eldur um borð í skipi er eitt af því hættulegasta …
Eld­ur um borð í skipi er eitt af því hættu­leg­asta sem get­ur gerst á sjó og er nú unnið að því að koma upp nýju æf­inga­svæði. Ljós­mynd/​Slysa­varna­skóli sjó­manna

Það eru spenn­andi tím­ar um þess­ar mund­ir hjá skól­an­um, að sögn skóla­stjór­ans. „Við erum að vinna með slökkviliði höfuðborg­ar­svæðis­ins að því að koma upp nýju æf­inga­svæði til slökkvistarfa fyr­ir sjó­menn og slökkviliðið. Þar erum við að fara í um­hverf­i­s­væn­an æf­inga­búnað, byggja æf­inga­hús og nota gas til íkveikju. Þetta er gríðar­stórt verk­efni.“ Auk þess er unnið að því að koma upp hermi eða sam­líki sem á að nota til að þjálf­un­ar í sigl­ingu báta og björg­un­ar­fara við mis­mun­andi aðstæður, en herm­inn fær skól­inn að gjöf í gegn­um Tækni­skól­ann. Hilm­ar kveðst binda mikl­ar von­ir við tækið sem hann seg­ir geta skilað mik­illi þekk­ingu til þeirra sem munu nota það.

Þá seg­ir hann það draum að fá nýtt skóla­skip. „Það er nú ferja sem er að losna fljót­lega sem heit­ir Herjólf­ur, hann gæti hentað vel fyr­ir okk­ar starf­semi í stað Sæ­bjarg­ar, sem var smíðuð 1974. Hún er orðin nokkuð göm­ul.“

Spurður hvort það sé þrjóska eða ástríða sem hafi haldið hon­um í starfi við skól­ann í 29 ár svar­ar Hilm­ar að það sé tví­mæla­laust ástríða. „Fyr­ir mér er þetta lífs­stíll og ég hlakka til hvers ein­asta dags sem ég mæti í vinn­una. Auðvitað verð ég ekki enda­laust í starfi, það er al­veg ljóst, en þetta er svo gef­andi starf. Þess vegna er ég ekki hætt­ur,“ seg­ir hann og hlær.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: